Systirin greindist mánuði síðar

Agnes og Ólöf fengu krabbamein á sama tíma. ​Þær segja …
Agnes og Ólöf fengu krabbamein á sama tíma. ​Þær segja Ljósið hafa hjálpað sér mikið. mbl.is/Ásdís

Ólöf og Agnes eru ekki tvíburar, heldur tveir þriðju af þríburum. Síðastliðið haust greindust þær báðar með brjóstakrabbamein á svipuðum tíma; fyrst Ólöf og mánuði síðar Agnes. Það var þeim að vonum mikið áfall en í dag eru þær komnar yfir það versta. Þær segjast hafa fengið stuðning hvor frá annarri og öðrum fjölskyldumeðlimum en einnig hafi Ljósið sannarlega skipt sköpum.

Tvenns konar krabbamein

„Ég greinist í lok september á síðasta ári með brjóstakrabbamein og gekkst þá undir fleygskurð og fimm geisla,“ segir Ólöf.

„Þegar ég fer svo í aðgerðina er Agnes að greinast, en hún vildi ekki segja mér frá því strax,“ segir Ólöf.

„Ég var nýbúin að fá boð um að koma í myndatöku og fæ svo að vita að ég eigi að koma í myndatöku og ástungu því það hafi eitthvað fundist hjá mér. Þetta var sama dag og Ólöf fór í aðgerðina,“ segir Agnes.

„Ég greindist með tvenns konar krabbamein og þurfti að fara í brjóstnám og svo var val um hvort ég ætti að fara í lyfjagjöf en ég ákvað að fara ekki,“ segir Agnes og nefnir að þar sem krabbinn var kominn í eitla, en ekki nema þrjá af tíu sem teknir voru, hafi hún fengið þetta val.

„Það var erfitt að þurfa sjálf að taka ákvörðun um framhaldið,“ segir Agnes.

Áfallið var mikið

„Þetta var svakalegt sjokk; fyrst þegar hún greinist og ég er þá aðstandandi hennar, og svo þegar ég greinist sjálf,“ segir Agnes.

„Já, við fengum krabbamein og urðum líka aðstandendur krabbameinssjúklings,“ segir Ólöf og tekur undir að áfallið hafi verið mikið.

„Þetta var líka svakalegt sjokk fyrir aldraða móður okkar en hún hafði misst mömmu sína úr krabbameini,“ segir Ólöf.

„Við höfum svo hjálpað hvor annarri í gegnum þetta en þetta hefur verið erfitt samt,“ segir Ólöf og segist hafa verið fimm mánuði frá vinnu.

Það má hrósa Ljósinu

„Það sem greip okkur mest var Ljósið,“ segir Agnes og að Ólöf hafi farið aðeins á undan, en síðan fóru þær saman á grunnnámskeið sem hjálpaði mikið.

„Það voru erfið spor að ganga þar inn, ég viðurkenni það. Ég gekk inn og hugsaði: Það getur ekki verið að ég eigi að vera hér,“ segir Ólöf.

Systurnar segjast líða ágætlega í dag, en aukaverkanir af lyfjum eru þó að trufla. Ólöf er með verki í fótum og báðar finna þær fyrir ógleði.

„Þetta fór illa með sálartetrið en Ljósið greip mann. Þar myndaðist strax hópur og við erum enn í sambandi við hópinn á Facebook sem er svo dýrmætt,“ segir Agnes.

„Það má heldur betur hrósa Ljósinu og öllu starfsfólkinu þar,“ segja Ólöf og Agnes að lokum.

Ítarlegt viðtal er við systurnar í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert