Tækifæri til mannsæmandi lífs

Bergþóra Guðnadóttir og Jóel Pálsson, stofnendur Farmers Market, með handverksfólki …
Bergþóra Guðnadóttir og Jóel Pálsson, stofnendur Farmers Market, með handverksfólki í Brama Town í Síerra Leóne. Ljósmynd/Aurora Foundation

„Ég er komin aftur til Síerra Leóne og er núna að vinna með handverksfólkinu hér við að framleiða fleiri körfur sem fara í næsta gám til Íslands,“ segir Regína Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri Aurora Foundation-velgjörðarsjóðsins í Síerra Leóne, í samtali við mbl.is.

Greinir hún þar frá nýhöfnu samstarfi Aurora við íslenska hönnunarfyrirtækið Farmers Market sem hjónin Bergþóra Guðnadóttir hönnuður og Jóel Pálsson tónlistarmaður hleyptu af stokkunum fyrir tæpum tuttugu árum – árið 2005.

Felur samstarf sjóðsins og hönnunarfyrirtækisins í sér þróun vörulínu, blöndu af basti og textíl, þar á meðal körfurnar sem Regína nefnir, sem eru til sölu í verslunum Farmers Market og á Sweet Salone-vefsíðu Auroru sem unnið hefur með handverksfólki í Afríkuríkinu Síerra Leóne allar götur síðan 2017 og þróað vörur í samstarfi við íslenska hönnuði undir vörumerkinu Sweet Salone.

Efniviðurinn vex á trjánum

„Fleiri vörur eru í bígerð í samvinnu við Farmers Market þar sem stefnan er að vinna bara með textíl og textílvefnað og kynnum við þessar vörur þegar þær verða fullbúnar,“ heldur framkvæmdastjórinn áfram og kveður viðtökur íslenskra neytenda hafa farið fram úr björtustu vonum.

Áðurnefnd Bergþóra segir það hafa verið ævintýri líkast að heimsækja þetta fjarlæga land, Síerra Leóne og kynnast starfi Aurora-sjóðsins þar. „Okkar fyrsta samstarfsverkefni er með handverksfólki frá Brama Town þar sem vörurnar eru ofnar úr basti,“ segir Bergþóra. Þar séu hæg heimatökin þar sem efniviðurinn vaxi bókstaflega á trjánum.

Heimatökin er hæg ef svo má segja hjá handverksfólkinu í …
Heimatökin er hæg ef svo má segja hjá handverksfólkinu í Brama Town þar sem efniviðurinn vex bókstaflega á trjánum. Ljósmynd/Aurora Foundation

„Svo er setið undir skuggsælu tré og bastið skorið til, hreinsað og ofið úr því,“ segir hún frá og leggur áherslu á að hinn náttúrulegi litur á bastinu utanverðu fái að njóta sín í vörunum en þeir geti verið allt frá ljósgylltu yfir í bleika, bláa og grænleita tóna.

Tenging hönnuða og handverksfólks

„Að auki notum við efni sem við fundum á markaðnum í fléttaðar höldur og svo eru smáatriði úr áprentuðum textíl sem er mjög áberandi í fatnaði Síerra Leóne-búa,“ segir Bergþóra og fær illa dulið hrifningu sína af því litríka samfélagi sem við henni blasi í heimsókninni.

Regína kveður megináherslu samstarfsins vera á að tengja íslenska hönnuði og handverksfólk í Síerra Leóne. „Fyrir okkur er það mjög dýrmætt að fá hæfileikaríka og standsetta hönnuði eins og Farmers Market í samstarf við okkur,“ segir hún.

Regína Bjarnadóttir ásamt fjölskyldu sinni í Síerra Leóne. Aurora-sjóðurinn sem …
Regína Bjarnadóttir ásamt fjölskyldu sinni í Síerra Leóne. Aurora-sjóðurinn sem hún stýrir hefur nú blásið til samstarfs við íslenska hönnunarfyrirtækið Farmers Market. Ljósmynd/Aðsend

Meginmarkmiðið sé að veita handverksfólkinu tækifæri til mannsæmandi lífs en einnig að varðveita þá sterku handverkshefð sem sé hluti af arfleifð Síerra Leóne. „Útkoman er handunnin sjálfbær hönnun sem allir þátttakendur geta verið stoltir af,“ segir Regína og kveður það verða spennandi að þróa samstarfið við Farmers Market áfram á framandi slóðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert