Gosinu sennilega lokið um helgina

Hraun hefur flætt hraðar að Grindavíkurvegi en í gosinu 18. …
Hraun hefur flætt hraðar að Grindavíkurvegi en í gosinu 18. desember. Samsett mynd/Hörður Kristleifsson/Arnþór Birkisson

Líklegt er að eldgosinu milli Sundhnúks og Stóra-Skógfells verði lokið um helgina en þó má aftur búast við gosi á Reykjanesskaganum í ár. Þetta segir Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði hjá Háskóla Íslands.

Hraun hefur flætt hraðar að Grindavíkurvegi en í gosinu 18. desember og hefur í þetta skiptið farið yfir veginn. Þorvaldur telur hraunflæðið ekki vera meira en segir að það renni nú um „gamlan farveg“.

Meðfylgjandi myndskeið tók Sveinbjörn Darri Matthíasson sem flaug yfir gosstöðvarnar í morgun ásamt föður sínum, Matthíasi Sveinbjörnssyni. 

Lægð í hrauninu

„Þessi hraunteigur sem er að fara þarna til vesturs, mér sýnist á öllu að hann hafi náð að koma sér í svona gamlan farveg þarna, það er lægð þarna í hrauninu,“ segir Þorvaldur í samtali við mbl.is. 

„Þá er spurning hvernig fram vindur í gosinu. Ef það heldur áfram að draga úr gosinu eins og það er að draga úr því, þá getur vel verið að það nái aldrei að fylla þá lægð. En ef gosið heldur áfram, því lengur sem það varir, þá nær það að fylla þessa lægð og þá fer streymið áfarm,“ bætir hann við.

Feðgarnir Matthías Sveinbjörnsson og Sveinbjörn Darri Matthíasson flugu yfir gosstöðvarnar …
Feðgarnir Matthías Sveinbjörnsson og Sveinbjörn Darri Matthíasson flugu yfir gosstöðvarnar um kl. 11 í morgun. Ljósmynd/Sveinbjörn Darri Matthíasson

Mun líklega endurtaka sig

Þá segist hann búast við því að gosinu ljúki bráðlega.

„Það virðist draga jafnt og þétt úr því. Mér sýnist þetta bara vera svipað og 18. desember,“ segir Þorvaldur.

„Það er mest að gerast í byrjun. Núna eru komnir 7 klukkutímar. Ég held að þetta vari út af hægt og rólega og verði sennilega búið helgina,“ segir Þorvaldur.

Þá býst hann einnig við því að eldsumbrotin endurtaki sig oftar en einu sinni í ár.

„Ég get alveg séð fyrir mér að þetta endurtaki sig nokkrum sinnum í viðbót. Það er eitthvað sem við megum alveg búast við að haldi áfram út þetta árið,“ segir hann.

„Það þarf eitthvað að stoppa innflæðið í neðra geymsluhólfinu. Á meðan að það er alltaf tilbúið að pumpa kviku upp í það grynnra þá heldur þetta áfram,“ bætir hann við að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka