Hjáveitulögnin farin í sundur

Hjáveitulögnin meðfram Njarðvíkuræðinni er farin í sundur. Lögnin er undir miðju hrauni og fór í sundur um klukkan hálf ellefu í kvöld. 

Í tilkynningu frá HS Orku segir að heitt vatn berist því ekki lengur til Reykjanesbæjar. 

Væntanlega laskaðist lögnin við hraunrennslið í gærmorgun og seint í kvöld, þegar aukið var við vatnsdælingu, virðist hún hafa brostið endanlega. Staðsetningin er undir miðju hrauni, á þeim kafla þar sem það er þykkast, og því útilokað að ráðast í viðgerðir þar.

Heitavatnslaust í einhverja daga

Í tilkynningunni segir að þegar sé hafinn undirbúningur að lagningu nýrrar lagnar í samstarfi við almannavarnir en ljóst er að sú framkvæmd mun taka einhverja daga. 

Ekki sé hægt að áætla nákvæmar tímasetningar á þessari stundu. 

Einnig rafmagnslaust

Rafmagnslaust er í einhverjum hverfum og bæjarkjörnum á Reykjanesskaga og hefur verið frá því í kvöld. Í Innri-Njarðvík fór rafmagnið af um klukkan 19. 

Í Keflavík er kerfið komið að þolmörkum.

Brýnt er að fylgja leiðbeiningum almannavarna og HS Veitna varðandi viðbrögð við í þessum erfiðu og krefjandi aðstæðum.

Íbúar á svæðum þar sem ekkert heitt vatn er geta nálgast ítarlegar upplýsingar á vef HS Veitna. Þar eru einnig upplýsingar á ensku og pólsku. 

Á sama vef eru upplýsingar um ef einnig verður rafmagnslaust á svæðinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert