Starfsmaður RÚV skemmdi fyrir öðrum fjölmiðlum

Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, á vettvangi eldgossins í vikunni.
Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, á vettvangi eldgossins í vikunni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, segir atvik sem átti sér stað skömmu eftir að Grindavík var fyrst rýmd hafa haft áhrif á ákvarðanir um aðgengi fjölmiðla síðan.

„Þetta fór [...] ekki vel af stað, þegar starfsmaður RÚV reyndi að komast inn á yfirgefið heimili. Það fór gríðarlega illa í Grindvíkinga. Þá voru aðgerðir viðbragðsaðila gagnrýndar af Grindvíkingum sem öðrum,“ segir Úlfar í samtali við Sunnudagsblað Morgunblaðsins.

Þurfum við hin sumsé að súpa seyðið af gjörðum hans?

„Þetta voru vond skilaboð inn í samfélagið og þessi einstaklingur skemmdi klárlega fyrir öðru fjölmiðlafólki vegna neikvæðrar upplifunar fólks og umræðu. Það er nú þannig. Hann setti blett á óheppilegum tíma, þegar enginn Grindvíkingur var inni í bænum.“

Sagan ágætlega skráð

Úlfar ræðir ítarlega um aðgengismál í viðtalinu, þar sem eftirfarandi kemur meðal annars fram:

Finnst þér þú hafa gert allt sem þú mögulega hefur getað fyrir blaðamenn, sem leggja auðvitað metnað sinn í að skrásetja söguna á hverjum tíma?

„Ég er nú ekki viss um það en að mínu mati er sagan ágætlega skráð. Vilji menn sýna verk­efnum og aðstæðum sanngirni er það mín skoðun að blaðamenn og ljósmyndarar hafi sinnt því verkefni með ágætum að segja frá og mynda þá atburði sem staðið hafa yfir hér á Reykjanesi undanfarin ár, þrátt fyrir takmarkanir á aðgengi. Það sem farið hefur forgörðum í Grindavík er þrjú einbýlishús, annað stendur. Mörg hús eru ónýt eða mikið löskuð en standa enn. Í snjóflóðunum fyrir vestan á sínum tíma glataðist mun meira, sumir misstu allt sitt. Mannfall varð líka mikið. Hér höfum við misst mann, í hræðilegu slysi, en að öðru leyti hafa mannslíf ekki tapast. Fráfall Lúðvíks Péturssonar hefur reynst okkur erfitt og samfélaginu öllu hér á Suðurnesjum. Hugur okkar er og hefur verið með aðstandendum hans og þeirra sem eiga um sárt að binda vegna banaslysa í umdæminu síðustu misseri. Starfsmenn hér hafa átt marga erfiða daga.”

Stormur í vatnsglasi

Formaður Blaðamannafélagsins hefur kallað eftir gögnum frá þér varðandi ákvarðanatöku í málinu. Muntu verða við þeirri beiðni?

„Ég á eftir að skoða það. En ég held að hún sé að misskilja þarna hugtök eins og ritskoðun og tjáningarfrelsi. Við sjáum til með mín viðbrögð.“

Úlfar á lögreglustöðinni í Reykjanesbæ.
Úlfar á lögreglustöðinni í Reykjanesbæ. mbl.is/Kristinn Magnússon


Byggist málflutningur hennar þá á misskilningi?

„Erfitt að segja en eilítill stormur í vatnsglasi að mínu mati.“

Stormur í vatnsglasi, segirðu. En nú hefur Blaðamannafélagið stefnt ríkinu til viðurkenningar á rétti blaðamanna til að stunda störf sín í Grindavík.

„Blaðamannafélaginu er frjálst að gera það sem það vill gera. Ég hef margsagt í samskiptum mínum við fjölmiðlafólk að ég er hérna með 3.800 Grindvíkinga sem orðnir eru flóttamenn í eigin landi. Þó að ekki hafi borist skrifleg beiðni um að halda fjölmiðlum frá íbúðargötum er það samtalið sem leiðir mann að þeirri niðurstöðu.“

Eru þessar ákvarðanir byggðar á skýrum heimildum?

„Þær eru byggðar m.a. á ákvæðum almannavarnalaga. Ég geri mér alveg grein fyrir því hverju fjölmiðlar sækjast eftir en stundum eru bara ákveðnar grensur.“

Ítarlega er rætt við Úlfar í Sunnudagsblaðinu. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert