TF-LIF flutt á flugsafnið á Akureyri

TF-LIF hefur undanfarna mánuði verið geymd í flugskýli Landhelgisgæslunnar í …
TF-LIF hefur undanfarna mánuði verið geymd í flugskýli Landhelgisgæslunnar í Nauthólsvík. mbl.is/Árni Sæberg

Nú liggur fyrir að björgunarþyrlan TF-LIF verður flutt til Akureyrar á næstunni þar sem hún verður til sýnis í Flugsafni Íslands um ókomin ár ásamt öðrum merkum vélum íslenskrar flugsögu.

TF-LIF kom til landsins árið 1995 og var í notkun fram til 2020. Alls voru það 1.565 manns sem var bjargað eða fluttir í sjúkraflugi með þyrlunni á 25 ára tímabili. Hún á því einstakan sess í björgunarsögu Íslands.

Í byrjun árs 2023 var TF-LIF sett í hefðbundið söluferli hjá Ríkiskaupum. Aðeins barst eitt tilboð, frá sænska fyrirtækinu EX-Change Parts AB. Fyrirtækið bauð 910.000 evrur í þyrluna og varahluti henni tengda. Það jafngildir um 130 milljónum íslenskra króna.

Svíarnir tóku úr þyrlunni þá hluti sem þeir töldu nýtilega. Að því búnu færðu færðu þeir Flugsafni Íslands á Akureyri þyrluna að gjöf.

Eins og fram kom í fréttaskýringu í blaðinu í september í fyrra tóku félagar í öldungaráði Landhelgisgæslunnar að sér það verkefni ásamt safnstjóra flugsafnsins að koma vélinni í safnhæft ástand og flytja hana norður á Akureyri. Á safninu eru nú þegar til sýnis tvær flugvélar sem tengdust Landhelgisgæslunni, þyrlan TF-SIF og Fokker-flugvélin TF-SYN. Öldungaráðið er félagsskapur fyrrverandi starfsmanna Lanhelgisgæslu Íslands.

Að sögn Halldórs B. Nelletts skipherra, eins félaga öldungaráðsins, hafa Svíarnir verið einstaklega almennilegir og gefið flugsafninu varahluti sem þeir eiga úti í Svíþjóð og duga vel til að gera þyrluna sýningarhæfa, eins og aðalblöðin, stélskrúfublöðin og margt fleira.

„Við erum að vinna í því að koma þessum hlutum frá Svíþjóð hingað heim eftir ýmsum leiðum,“ segir Halldór.

TF-LIF er nú geymd í flugskýli Landhelgisgæslunnar á Reykjavíkurflugvelli. Vonir standa til að hægt verði að flytja hana til Akureyrar í næsta mánuði, að sögn Halldórs.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert