Húsið brann til kaldra kola

Húsið er gjörónýtt.
Húsið er gjörónýtt. Samsett mynd/Brunavarnir Árnessýslu

Hús rétt norðan við Flúðir brann að mestu til kaldra kola í morgun. Um var að ræða gamalt íbúðarhús sem verið var að gera upp.

Þetta staðfestir Garðar Már Garðarsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á Suðurlandi, í samtali við mbl.is.

Garðar segir tilkynningu hafa borist um kukkan hálf sjö í morgun. Enginn var í húsinu þegar eldurinn kviknaði.

„Þegar viðbragðsaðilar komu á vettvang var mikill eldur í húsinu og fjótlega bárust fréttir um að það væri brunnið til kaldra kola.“

Ekki vitað hvers vegna eldurinn kviknaði

Ekki er vitað hvers vegna eldurinn kviknaði og er það nú til rannsóknar hjá lögreglu.

Pétur Pétursson, slökkviliðsstjóri Brunavarna Árnessýslu, segir í samtali við mbl.is að búið sé að slökkva eldinn að mestu leyti. Til þess að geta klárað verkið þurfi fyrst að aftengja rafmagn.

„Það er alltaf ákveðin hætta að vinna í svona brunarústum ef það er ennþá straumur,“ segir Pétur.

Pétur tekur fram að tekist hafi að bjarga skúr við hlið hússins, auk þess sem framhlið hússins stendur. Megnið af húsinu sé þó brunnið.

Tilkynning um eldinn barst um klukkan hálf sjö í morgun.
Tilkynning um eldinn barst um klukkan hálf sjö í morgun. Ljósmynd/Brunavarnir Árnessýslu
Húsið er rétt norðan við Flúðir.
Húsið er rétt norðan við Flúðir. Ljósmynd/Brunavarnir Árnessýslu
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert