Sterkar vísbendingar um að landris sé hafið á ný

Veðurstofa Íslands lýsti yfir goslokum í gær.
Veðurstofa Íslands lýsti yfir goslokum í gær. mbl.is/Árni Sæberg

Sterkar vísbendingar benda til þess að landris sé hafið á Reykjanesskaganum. Aftur á móti hafa aðeins þrír skjálftar, allir undir 1 að stærð, mælst við kvikuganginn við Grindavík frá miðnætti.

Veðurstofan hefur lýst eldgosinu sem hófst 8. febrúar á milli Sundhnúks og Stóra-Skógsfells sem yfirstöðnu.

Bryndís Ýr Gísladóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir í samtali við mbl.is að landris virðist hafið samkvæmt GPS-mælingum, þó ekki sé hægt að slá því föstu alveg strax.

Vilja bíða eftir frekari mælingum

„Við viljum samt bíða og fá aðeins fleiri [mæli]punkta til að geta staðfest það alveg,“ segir Bryndís, sem er síðan innt eftir því hvort mælingarnar teljist sterkar vísbendingar um landris. Því svarar hún játandi.

Jarðeðlis­fræðing­ur­inn Bene­dikt Gunn­ar Ófeigs­son, sem er fag­stóri af­lög­un­ar­mæl­inga á Veður­stofu Íslands, sagði í viðtali við Morgunblaðið á föstudag að land væri mjög lík­lega tekið að rísa á ný. Sú sé orðin venjan í eldgosunum á Reykjanesskaganum.

Eldfjallafræðingurinn Þorvaldur Þórðarson sagði þá einnig við mbl.is að teikn væru um að landris væri hafið á ný, þó ekki væri hægt að staðfesta það. 

Kvikugangurinn rólegur – 3 skjálftar frá miðnætti

„Í kvikuganginum sjálfum hefur verið mjög lítil virkni síðustu tvo, þrjá daga,“ segir Bryndís.

„En við höfum verið að fá skjálfta víðar á Reykjanesskaganum, sem þarf ekki að tengjast þessu endilega en getur verið bakgrunnsvirkni.“

Þá segir hún að aðeins þrír skjálftar hafi mælst í kvikuganginum við Grindavík frá miðnætti. Allir voru þeir undir 1 að stærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert