Blaðamenn fá flýtimeðferð i Grindavíkurmáli

Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður Blaðamannafélags Íslands, og Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri …
Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður Blaðamannafélags Íslands, og Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum. Samsett mynd

Héraðsdómur Reykjavíkur féllst í dag á beiðni Blaðamannafélags Íslands um flýtimeðferð vegna máls sem félagið hefur höfðað á hendur íslenska ríkinu til viðurkenningar á rétti blaðamanna til þess að stunda störf sín í Grindavík.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu. Réttarstefna í málinu var gefin út í dag og birt fyrir íslenska ríkinu. Málið verður þingfest í Héraðsdóm Reykjavíkur kl. 14 á miðvikudag.

Fordæmalausar takmarkanir á fjölmiðlafrelsi

Flóki Ásgeirsson, lögmaður Blaðamannafélags Íslands, segir í tilkynningu:

„Búast má við því að ríkið óski eftir 2-4 vikna fresti til að skila greinargerð af sinni hálfu um málið. Flýtimeðferð málsins er forsenda þess að unnt sé að tryggja þau réttindi sem málshöfðunin varðar og afar þýðingarmikið fyrir málið í heild að fallist hafi verið á hana.

Ljóst er að um fordæmalausar takmarkanir á fjölmiðlafrelsi er að ræða og málið fordæmisgefandi um hlutverk fjölmiðla við umfjöllun um náttúruhamfarir og takmarkanir á fjölmiðlafrelsi við slíkar aðstæður.“

Þá kemur fram að félagið krefjist þess að viðurkennt verði með dómi að blaðamönnum sé það heimilt án sérstaks leyfis lögreglustjórans á Suðurnesjum, fari þeir að þeim almennu fyrirmælum sem í gildi eru á hverjum tíma um umferð um bæinn og lokun einstakra svæða og öðrum lögmætum fyrirmælum lögreglu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert