Fagnaðaróp þegar heita vatnið kom á

Heitt vatn er farið að streyma til heimila.
Heitt vatn er farið að streyma til heimila. mbl.is/Sigurður Bogi

„Ég var að þvo mér um hendurnar með heitu vatni,“ segir Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, , staðgeng­ill bæj­ar­stjóra í Reykja­nes­bæ og formaður bæj­ar­ráðs, sigrihrósandi í samtali við mbl.is.

Heitt vatn er nú komið á hluta heimila á Reykjanesskaga en starfsmenn HS Orku og HS Veitna hafa unnið hörðum höndum síðastliðinn sólarhring við að koma nýrri hjáveitulögn Njarðvíkuræðarinnar í gagnið.

Halldóra Fríða segir fagnaðarlæti hafa brotist út í ráðhúsinu þegar …
Halldóra Fríða segir fagnaðarlæti hafa brotist út í ráðhúsinu þegar heitavatnið kom á. Ljósmynd/Aðsend

Dæla vatni hægt og rólega 

Páll Erland, forstjóri HS Veitna, sagði við mbl.is í morgun að íbúar mættu eiga von á að heitt vatn væri farið að streyma til fyrstu húsa undir hádegi.

Að sögn Halldóru Fríðu er heitt vatn nú komið á hluta fasteigna í Reykjanesbæ, þar á meðal ráðhúsið.

„HS Orka kláraði að græja lögnina í nótt. HS Veitur tóku þá við af því að þeir voru búnir að dæla inn á birgðatanka sem eru á Fitjum. HS Veitur byrja að dæla hægt og rólega vatni inn á þeirra kerfi sem liggja til húsanna. Nú er heitt vatnið farið að streyma í hús.“ 

Fagnaðaróp í ráðhúsinu

„Hér heyrðust fagnaðaróp og fólk fór að þvo sér um hendur,“ segir Halldóra þegar hún lýsir því þegar starfsmenn ráðhússins uppgötvuðu að heitt vatn væri komið í lagnirnar.

Höfðu flestir búið sig undir að heitavatnið færi ekki að streyma á ný fyrr en síðar í vikunni.

„En með þessum samtakamætti og þessari þrotlausu vinnu þá er staðan bara akkúrat svona í dag.“

Bendir íbúum á að kynna sér upplýsingar

Hún bætir þó við að það muni taka smá tíma fyrir kerfið að byggja upp eðlilegan þrýsting til að hægt sé að koma heituvatni til allra hverfa á Suðurnesjum. Það muni þó vonandi gerast síðar í dag.

Halldóra bendir íbúum á að kynna sér upplýsingar á vefsíðu HS Veitna um hvað skuli gera nú þegar heitaavatnið er farið að streyma á ný.

Klukkan 15 í dag hefst svo fundur með aðgerðastjórn almannavarna þar sem farið verður yfir stöðu mála.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert