Fólk sem þekkir að sofa með húfu og spara vatn

Rafmgnsofnum var komið fyrir í íbúðum heimilsmanna nálægt dyrunum svo …
Rafmgnsofnum var komið fyrir í íbúðum heimilsmanna nálægt dyrunum svo ylurinn leiti einnig fram á gang. mbl.is/Kristinn Magnússon

Heimilisfólkið á Nesvöllum, hjúkrunarheimili Hrafnistu í Reykjanesbæ, hefur ekki kippt sér mikið upp við heitavatnsleysið undanfarna daga að sögn Þuríðar Elísdóttur, forstöðumanns Hrafnistu á Suðurnesjum.

Þuríður segir fólkið hafa upplifað ýmislegt á sinni löngu ævi, meðal annars að þurfa að sofa með húfu og þurfa að spara vatn. Hún segir yngra fólkið gera meira úr ástandinu og það geti lært ýmislegt af gamla fólkinu.

Þuríður Elísdóttir, forstöðumaður Hrafnistu á Suðurnesjum.
Þuríður Elísdóttir, forstöðumaður Hrafnistu á Suðurnesjum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kunna nú betur að meta sjálfsögð lífsgæði

Hún segir að hjúkrunarheimilin; Nesvellir og Hlévangur hafi búið sig vel undir heitavatnsleysið. Rafmagnsofnum hafi verið komið fyrir í íbúðum heimilismanna nálægt dyrunum svo ylurinn leiti einnig fram á gang.

Þegar blaðamann og ljósmyndara mbl.is bar að garði í dag var góður ylur á Nesvölum, bæði á göngunum og sér í lagi í íbúðum heimilismanna.

Fjölda rafmagnsofna þurfti til að kynda hjúkrunarheimilin.
Fjölda rafmagnsofna þurfti til að kynda hjúkrunarheimilin. mbl.is/Kristinn Magnússon

Varaaflstöð er við hjúkrunarheimilið Hlévang að sögn Þuríðar og þá hafi Nesvellir aðgang að varaaflsstöð á vegum ÞG verktaka ef á þarf að halda. Ekki hefur komið til þess enn.

Segir Þuríður að hún hafi sjálf leitað í reynslubanka heimilismanna í daglegum athöfnum enda heyrt ófáar sögur af fyrri tímum í starfi sínu.

Það má draga lærdóm af ástandinu að mati Þuríðar sem er að íbúar á Suðurnesjum kunni betur að meta sjálfsögð lífsgæði á borð við heita vatnið, sér í lagi þeir sem yngri eru.

Hrafnista DAS
Hrafnista DAS mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert