„Lady Lava“ róar hrædda ferðamenn

„Lady Lava“ er nafn sem Ragnhildur Ágústdóttir hefur notað á samfélagsmiðlum til að miðla réttum upplýsingum um eldvirknina á Reykjanesi. Dramatískar lýsingar hafa verið settar fram af erlendum fjölmiðlum um ástandið á Íslandi. Ísland sé hreinlega að liðast í sundur og muni hverfa í öskuskýi, er meðal þess sem erlendir fjölmiðlar hafi haldið fram.

Ragnhildur, sem er gestur Dagmála Morgunblaðsins í dag segir meðal annars frá þeim miklu viðbrögðum sem „Lady Lava“ hefur fengið. Hún og eiginmaður hennar eiga og reka Lava show á Íslandi þar sem nýbræddu hrauni er hellt inn í sýningarsal fyrir gesti. Á sama tíma er sýningin þeirra fræðsla um eldvirkni landsins.

„Vorum bara að segja satt og rétt frá“

Hún segir að umfjöllun fjölmiðla erlendis hafi tekið stökk eftir atburðina 10. nóvember og hádramatískar lýsingar hafi farið á flug. Það hafi leitt til þess að þau hafi vilja greina satt og rétt frá hver staðan væri á Íslandi. 

„Við vorum bara að segja satt og rétt frá. Hvorki að ýkja eða draga úr.“ Ragnhildur segir að margir ferðamenn hafi kunnað að meta þetta og þau hafi fengið góð og mikil viðbrögð.

Hún nefnir sem dæmi að í einu myndbandinu segist hún vera stödd í Reykjavík og sé þar með börnin sín. Hún myndi ekki vera þar ef þeim væri ekki óhætt. Nokkrum dögum síðar var hún stödd á hótel Kötlu við Vík í Mýrdal þegar að erlend kona vatt sér að henni og spurði lotningarfull hvort hún væri virkilega Lady Lava.

Ragnhildur játti því og þá sagði þessa kona henni frá því að hún hafi verið búin að skipuleggja ferð til Íslands með stórfjölskyldunni þegar þau hafi heyrt þessar skelfilegu fréttir frá Íslandi. Hún hafi verið mjög tvístígandi hvort þau ættu að fresta ferðinni eða halda henni til streitu. Það sem gerði útslagið hafi verið skilaboð Lady Lava um að hún væri pollróleg með börn sín í Reykjavík.

Með fréttinni fylgir brot af viðtalinu við Ragnhildi í Dagmálaþætti dagsins. Þar ræðir hún um fyrirtæki þeirra hjóna, Lava show sem bræðir nú reglulega hraun á tveimur stöðum á Íslandi. Fyrirtækið er með sýningar í Vík í Mýrdal og í Reykjavík. Það er margt skemmtilegt og forvitnilegt sem kemur fram í viðtalinu við Ragnhildi.

Þátturinn í heild sinni er aðgengilegur fyrir áskrifendur Morgunblaðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert