Land rís á svipuðum hraða og eftir síðustu gos

Land heldur áfram að rísa við Svartsengi.
Land heldur áfram að rísa við Svartsengi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Land rís um hálfan til heilan sentímetra á dag við Svartsengi, sem er svipaður hraði og eftir síðustu eldgos.

Þetta kemur fram í tilkynningu Veðurstofunnar.

Kvika heldur áfram að safnast undir Svartsengi og eru miklar líkur taldar á að atburðarásin á Reykjanesskaga endurtaki sig eftir nokkrar vikur með nýju kvikuhlaupi og eldgosi.

Færslur á GPS-stöðinni SENG í Svartsengi síðan 11. nóvember 2023 …
Færslur á GPS-stöðinni SENG í Svartsengi síðan 11. nóvember 2023 í norður, austur og lóðrétt (efst, miðja, neðst). Neðsti ferillinn sýnir landris í millimetrum, og mælingin í gær (11. febrúar) er sýnd með grænum punkti. Rauðu línurnar eru tímasetningar á síðustu þremur eldgosum (18. desember 2023, 14. janúar og 8. febrúar 2024). Graf/Veðurstofa Íslands

Smáskjálftavirkni

Jarðskjálftavirkni norðan Grindavíkur hefur verið minniháttar frá hádegi 8. febrúar, en þar hafa um 50 smáskjálftar mælst, allir um eða undir einum að stærð.

Einnig hefur verið smáskjálftavirkni í vestanverðu Fagradalsfjalli, en þar mældust rúmlega hundrað skjálftar, flestir um eða undir einum að stærð. Þar hefur smáskjálftavirkni verið viðvarandi síðustu vikur en dýpi skjálftanna er um sex til átta km. 

Veðurstofan mun birta uppfært hættumatskort síðar í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert