Lífið gengur nokkurn veginn sinn vanagang

Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum.
Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Lífið gengur nokkurn veginn sinn vana gang í byggðunum á Suðurnesjum að sögn Úlfars Lúðvíkssonar, lögreglustjóra á Suðurnesjum. Segir hann alla vinna á sínum stöðum en án heits vatns.

Páll Erland, for­stjóri HS Veitna, sagði í samtali við mbl.is í morgun að íbúar á Suður­nesj­um mættu bú­ast við að heitt vatn verði farið að streyma til fyrstu húsa und­ir há­degi í dag.

Sagði hann viðgerð lokið á hita­veituæðinni frá Svartsengi og heitt vatn sé farið að streyma í tank­ana á Fitj­um. 

Brýnt að koma hita á húsin

Úlfar segir brýnustu verkefnin að fá heitavatnskerfið til að virka og koma hita á húsin. Þá segir hann að haldið verði áfram með sprungufyllingar í Grindavík í dag og að haldið verði áfram með gerð bráðabirgðavegarins yfir nýrunnið hraunið á Grindavíkurvegi.

Víða eru skemmdir á lagnakerfi að sögn Úlfars, til að mynda undir bílastæðum, en hann segir það koma betur í ljós þegar vatni verður hleypt á kerfin.

Aðgengi Grindvíkinga að bænum í dag verður með sama hætti og verið hefur undanfarna daga að sögn Úlfars Lúðvíkssonar, lögreglustjóra á Suðurnesjum.

„Bæði íbúar og fyrirtæki eru að fara inn en auðvitað færri íbúar en áður,“ segir Úlfar og bætir því við að fyrirkomulagið verði endurskoðað síðar í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert