María Lilja hafði betur í meiðyrðamáli Hugins Þórs

María Lilja Þrastardóttir Kemp hafði betur gegn Hugin Þór Grétarssyni, …
María Lilja Þrastardóttir Kemp hafði betur gegn Hugin Þór Grétarssyni, sem hafði höfðað meiðyrðamál gegn Maríu Lilju vegna ummæla hennar árið 2018 sem tengdust Daddytoo-hópnum sem Huginn Þór var hluti af. Samsett mynd

Fjölmiðlakonan María Lilja Þrastardóttir Kemp var á föstudag sýknuð af meiðyrðamáli barnabókahöfundarins og bókaútgefandans Hugins Þórs Grétarssonar. Snerist málið um ummæli sem María Lilja lét falla í mars og maí árið 2018, en Huginn stefndi Maríu Lilju vegna þeirra árið 2021.

Huginn Þór var einn þeirra sem var í forsvari fyrir Daddytoo-hópinn svokallaða, en hópurinn hafði að markmiði að berjast fyrir rétti feðra til umgengni við börn sín og gegn tálmun sem þeir töldu sig verða fyrir. Hafði Huginn Þór meðal annars komið fram í viðtali við nokkra af forsvarsmönnum hópsins.

Ummæli Maríu Lilju komu í kjölfar viðtalsins, en ummælin sem Huginn Þór krafðist að yrðu ómerkt voru eftirfarandi:

  • Á Facebook-síðu Maríu Lilju: „Ofbeldismenn að beita konu kúgunum og ofbeldi. Way to proof a point hálfvitar.“
  • Á Facebook-hópnum Fjölmiðlanördar: „Hefði það drepið blaðakonu að googla feril þessara ofbeldismanna sem fá hér að halda uppteknum hætti og hrella barnsmæður sínar óáreittar ? Hér eru hrottar sem berja konur og börn og stunda grimma sögufölsun sér í hag.“
  • Á Facebook-hópnum Fjölmiðlanördar: „Hvað með að flooda þetta millumerki með dómum um þá og viðtölum við mæður sem hafa orðið fyrir ofbeldi frá þeim.“

Málinu fyrst vísað frá vegna formgalla

Héraðsdómur hafði áður sýknað Maríu Lilju og talið orð hennar rúmast innan þess svigrúms sem tjáningarfrelsisákvæði stjórnarskrár og Mannréttindasáttmála Evrópu veita.

Huginn Þór áfrýjaði málinu til Landsréttar sem vísaði málinu frá í nóvember vegna galla á formhlið málsins. Hafði Huginn Þór fengið aðstoð lögmanns við að útbúa stefnuna á sínum tíma en flutt málið sjálfur í héraðsdómi. Hann annaðist einnig sjálfur áfrýjunina til Landsréttar, en Huginn Þór er ólöglærður. Í frávísunarúrskurði Landsréttar kom meðal annars fram að þrátt fyrir ítarlegar leiðbeiningar Landsréttar um formhlið málsins, uppbyggingu og efni málsgagna og greinargerðar, hafi frágangur hans á greinargerð verið í andstöðu við lög og frágangur málsgagna í andstöðu við reglur Landsréttar.Þóttu slíkir gallar á málatilbúnaði Hugins Þórs að óhjákvæmilegt var að vísa málinu frá.

Huginn Þór kærði þessa niðurstöðu hins vegar til Hæstaréttar sem felldi úrskurð Landsréttar úr gildi og lagði fyrir réttinn að taka málið til efnismeðferðar. Var meðal annars vísað til þess að beina hefði mátt frekari leiðbeiningum til Hugins Þórs og að gera yrði vægari kröfur til hans þar sem hann væri ólöglærður. Málið var því tekið til efnislegrar meðferðar eftir áramót.

Almenn umræða um mikilvægt samfélagslegt málefni

Í niðurstöðu Landsréttar er meðal annars litið til þess að Huginn Þór hafði, áður en ummæli Maríu Lilju féllu, tekið virkan þátt í þjóðfélagsumræðu um tálmun á umgengnisrétti barna við foreldra. Eru tvenn ummæli Maríu Lilju talin hafa falið í sér gildisdóma frekar en staðhæfingu um staðreynd og að hún hafi ekki farið út fyrir mörk tjáningarfrelsis síns með þeim. Landsréttur leit hins vegar á að ein ummælin væru staðhæfing um staðreynd, en að líta yrði til þess að þau hafi verið sett fram í tilefni af gagnrýni Maríu Lilju á viðtal við forsvarsmenn Daddytoo-hópsins, þar sem Huginn Þór var meðal annars til viðtals.

Vísar Landsréttur til þess að eftir viðtalið hafi barnsmóðir Hugins Þórs komið fram í viðtali og lýst ofbeldi af hans hálfu og sjálfur hefði Huginn Þór tjáð sig ítarlega um mál sitt og barnsmóðurinnar. Þá segir í dómi Landsréttar að einn viðmælandinn í umræddu viðtali hafi jafnframt verið dæmdur fyrir ofbeldisbrot og nafngreind kona enn annars mannanna hafi einnig komið fram og lýst heimilisofbeldi sem hún hafi orðið fyrir af hálfu hans.

Er það því niðurstaða Landsréttar að María Lilja hafi verið þátttakandi í almennri umræðu um mikilvægt samfélagslegt málefni sem erindi átti við almenning og af þeim sökum nýtur hún rúms tjáningarfrelsis. Hún hafi verið í góðri trú um að nægjanlegt tilefni væri til ummæla sinna og er fyrri dómur héraðsdóms því staðfestur og María Lilja sýknuð.

Er Hugin Þór jafnframt gert að greiða Maríu Lilju 400 þúsund krónur í málskostnað fyrir Landsrétti, en áður hafði honum verið gert að greiða eina milljón til hennar í málskostnað fyrir héraði.

María Lilja var ekki viðstödd dómsuppkvaðninguna á föstudaginn, en hún hefur síðustu daga verið stödd í Egyptalandi. Þar aðstoðaði hún, ásamt tveimur öðrum vinkonum sínum, meðal annars palestínska fjölskyldu, sem hafði fengið dvalarleyfi á Íslandi, yfir landamærin frá Gasa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert