Sættir sig ekki við krónutöluhækkun

Ari Skúlason, formaður Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja, segir bankana sleppa vel.
Ari Skúlason, formaður Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja, segir bankana sleppa vel. Samsett mynd/mbl.is/Ófeigur

Ari Skúlason, formaður Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja (SSF), segir í samtali við mbl.is ekki munu sætta sig við krónutöluhækkun. 

Hann ritaði nýverið pistil á vef samtakanna og fór yfir stöðu málanna í kjarasamningunum.  

Félagsmenn á móti krónutöluhækkunum

„Við gerðum könnun á því í október þar sem kom skýrlega í ljós að okkar fólk er á móti krónutöluhækkun og vill prósentuhækkun,“ segir Ari. Síðustu tveir kjarasamningar með krónutöluhækkunum hafi komið illa við félagsmenn SFF. 

„Það hefur dregist aftur úr hlutfallslega séð og það er eitthvað sem við þurfum að breyta,“ segir Ari. 

Hann nefnir sem dæmi að í síðustu kjarasamningum hafi verið þak á launahækkunum. 

„Um það bil helmingur af okkar félagsmönnum lendir í því. Þannig þeir fá ekki fulla launahækkun miðað við aðra,“ segir Ari.

Þegar fólk var almennt að fá 6,75% launahækkun hafi launþegar staðsettir hærra á tekjuskalanum verið að fá um 4% eða 3% launahækkun, út af þakinu.  

Sameiginlegur hagnaður upp á 84 milljarða

Ari ritar um það í pistlinum að sameiginlegur hagnaður Landsbankans, Íslandsbanka og Arion banka hafi verið 83,5 milljarðar og hafi aukist um 24% frá árinu 2022.

Í pistlinum segir að stór ástæða fyrir miklum hagnaði bankanna sé hversu létt þeir hafa sloppið frá launabreytingum síðustu ára miðað við önnur fyrirtæki.  

Aðspurður segir Ari bankana hafa svigrúm til að hækka laun starfsfólks.

„Algjörlega, það eru miklu fleiri tölur sem sýna það,“ bætir hann við og nefnir sem dæmi að framleiðniaukning í fjármálakerfinu hafi verið miklu meiri en í öðrum greinum.

„Það er alltaf verið að taka í gagnið nýja tækni og samhliða því fækkar fólki,“ segir hann. 

Bankarnir sleppi vel

„Við erum búin að halda því á lofti í þónokkurn tíma að í tveimur síðustu kjarasamningum er eins og það hafi verið markmið að bankarnir sleppi sem ódýrast,“ segir Ari. 

Hann segir starfsfólk bankanna vera með háar tekjur og vel menntað og bendir á að yfir 70% félagsmanna í SSF séu háskólamenntaðir. Í pistlinum segir að launakönnun samtakanna frá því nóvember sýni að meðalmánaðarlaun félagsmanna nemi 1.057 þúsund krónur. 

„Hlutfallsbreytingin eða prósentubreytingin bæði á launum og launakostnaði fyrir bankann er mjög lítil miðað við aðra.“

Samningsmál gangi illa 

Spurður hvernig samningsmál hafi gengið kveður Ari þau hafa gengið fremur illa.  

„Mér finnst þetta hafa gengið frekar illa. Það er ljóst að þeir sem hafa verið fremstir hafa keyrt verulega fast á krónutöluhækkanir og sagt það skýrt að þeir sem eru hærri eigi ekki að fá neitt meira. Það er náttúrulega eitthvað sem við erum ósammála.“ 

Það liggi í augum uppi að á síðustu árum hafi meðal- og hátekjufólk misst nokkuð mikið segir hann. 

„Gildi menntunar og það að fjárfesting í menntun borgi sig hefur minnkað verulega á síðustu árum með þessum krónutölubreytingum sem veldur því að fólk fer síður í háskólanám en ella.“  

Ari segir það gefa augaleið að eitt af því sem okkur vantar sé fólk með sérfræðiþekkingu sem skapar mikið, eins og til dæmis fólk í fjármálakerfinu sé að gera.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert