„Hvað þarf gamla fólkið að bíða lengi?“

Viðtalið tók á Hólmfríði, sem fékk innilegt faðmlag frá dóttur …
Viðtalið tók á Hólmfríði, sem fékk innilegt faðmlag frá dóttur sinn að því loknu. Hún sagðist vilja bíta á jaxlinn og koma skilaboðum áleiðis. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég er bæði sár og reið,“ segir hin 72 ára gamla Hólmfríður Georgsdóttir, sem ásamt eiginmanni sínum, Árna Bergmann Haukssyni, dvelur enn í sumarhúsi í Ölfusborgum á vegum Akranesbæjar síðan fólki var gert að yfirgefa Grindavíkurbæ í nóvember á síðasta ári.

Þau hjónin voru, ásamt sínu nánasta fólki, í óðaönn að flytja föggur sínar af heimilinu þegar blaðamann og ljósmyndara Morgunblaðsins bar að garði. Þetta var aðeins önnur ferð þeirra hjóna á gamla heimilið eftir jarðhræringarnar 10. og 11. nóvember.

Hjónin fengu dygga aðstoð frá sínum nánustu við að flytja …
Hjónin fengu dygga aðstoð frá sínum nánustu við að flytja föggur sínar af heimilinu. Hér er Hólmfríður á tali við systur sína. Hjónin voru aðeins að koma í annað sinn á gamla heimilið eftir atburðina í nóvember. mbl.is/Kristinn Magnússon

Örkin hans Nóa

Hólmfríður og Árni bjuggu í íbúð í lágreistu raðhúsi sem stendur innan marka vestari sigdalsins. Íbúðin er mikið skemmd eftir atganginn eins og margar aðrar íbúðir í húsinu. „Það er ekki hægt að bjóða okkur þetta lengur. Hér þurftu allir að fara út 10. nóvember árið 2023. Nú er kominn 13. febrúar árið 2024 og við erum enn ekki búin að fá varanlegt húsnæði,“ segir Hólmfríður.

Hún segir glettin að þau hjónin væru eflaust búin að fá húsnæði ef þau héldu gæludýr, og vísar þar til blokkar sem fjárfestingarfélag keypti á höfuðborgarsvæðinu og leigir eingöngu gæludýraeigendum úr Grindavík. Gárungarnir hafa víst kallað blokkina Örkin hans Nóa.

Hólmfríður hefur búið í bænum í rúma þrjá áratugi en Árni, sem er 67 ára gamall, er borinn og barnfæddur Grindvíkingur. Hún óskar þess að gamla fólkið gleymist ekki. „Ég vil að við á þessum aldri förum að fá fast húsnæði. Ég veit að við þurfum að leigja og það er allt í lagi en við þurfum að fá húsnæði þar sem við megum vera kyrr en ekki þurfa að færa okkur endalaust. Hvað þarf gamla fólkið að bíða lengi eftir húsnæði?“ spyr Hólmfríður ákveðin.

Hólmfríður og Árni bjuggu í íbúð í lágreistu raðhúsi sem …
Hólmfríður og Árni bjuggu í íbúð í lágreistu raðhúsi sem stendur innan marka vestari sigdalsins, sem myndaðist í jarðhræringunum 10. og 11. nóvember. Íbúðin er mikið skemmd eftir atganginn eins og margar aðrar íbúðir í húsinu. Kort/Veðurstofa Íslands

Skítakuldi yfir veturinn

Hún kveður þau hjónin þó heppin að halda til í tryggu húsnæði og þurfa ekki að fara á milli barna sinna eða systkina og flytja sig á milli herbergja sí og æ. Þau mega vera í húsinu í Ölfusborgum til 1. maí „en það er náttúrulega skítakuldi þarna yfir veturinn,“ segir Hólmfríður.

Íbúar í Grindavík hafa gengið í gegnum mikla óvissutíma, margir þeirra keyra á bensíngufunum og tankur einhverra er orðinn galtómur. Segir Hólmfríður að nú gangi þau hjónin í gegnum enn eitt óvissutímabilið og það má greina þreytuna í rödd hennar.

„Hérna átti ég að koma fyrir viku síðan og ég var með kvíða alveg í heila viku áður en ég átti að koma hingað,“ segir Hólmfríður með grátstafinn í kverkunum. Hún kveðst fyrst á jóladag hafa komið aftur heim eftir atburðinn í nóvember því hún hafi ekki getað hugsað sér að koma heim.

„Ég var ekkert skárri þegar ég kom hérna inn í morgun,“ segir hún og hreinlega brestur í grát. Segir Hólmfríður ástandið ekki gott og að Grindvíkingar séu alls ekki að drepast úr frekju. Segist hún þó gera sér grein fyrir því að auðvitað sé ein og ein manneskja sem skemmi fyrir fjögur þúsund manns.

Hólmfríður greip moppuna og gerði gólfið fínt fyrir óvænta gesti.
Hólmfríður greip moppuna og gerði gólfið fínt fyrir óvænta gesti. mbl.is/Kristinn Magnússon

Það þarf að gera eitthvað

„Þetta er skelfilegt. Það þarf að gera eitthvað fyrir okkur sem búum hérna á Íslandi. Það er búið að lofa okkur aðstoð og að gera hitt og þetta en nei – hérna situr maður enn eftir margar vikur,“ segir Hólmfríður, sem hefur ekki mikla trú á að húsnæðismál þeirra hjóna fari að skýrast en segir að skilnaði að birta muni til í vor þegar hún geti farið í sólbað – brosandi í gegnum tárin.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert