„Allt brjálað“ vegna opnunar Bláa lónsins

Jón Gunnar Margeirsson, fyrirtækjaeigandi í Grindavík, telur aðgerðir stjórnvalda gagnvart …
Jón Gunnar Margeirsson, fyrirtækjaeigandi í Grindavík, telur aðgerðir stjórnvalda gagnvart bænum of harkalegar. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta er galið. Algjörlega galið. Á meðan við fáum ekki að fara inn í bæ og opna fiskvinnslufyrirtæki og önnur fyrirtæki sem hægt er að opna, þá er Vegagerðin tilbúin með hönnun og farin að ryðja nýjan Bláa lóns veg rétt eftir eldgos og þar sem landrisið er mest,“ segir Jón Gunnar Margeirsson, framkvæmdastjóri flutningafyrirtækisins Jóns og Margeirs.

„Ef þetta er staðan, að Bláa lónið er virkilega að fara að opna, þá kviknar í öllu hérna í bænum. Það er allt brjálað. Fólk er orðið meira en brjálað," segir Jón Gunnar, íbúi í Hóphverfi í Grindavíkurbæ. Afleggjarinn að Bláa lóninu varð undir í síðasta eldgosi en mestur kraftur var úr því síðasta föstudag. Bláa lónið opnaði í morgun eftir lokun vegna eldgossins.  

Vinna að nýjum afleggjara að Bláa lóninu hófst í gær.
Vinna að nýjum afleggjara að Bláa lóninu hófst í gær. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ætla ekki að leyfa að slökkva ljósin

Jón Gunnar var að huga að eigum sínum í þegar blaðamann bar að garði. Hann segir fyrirtækin hafa blætt frá 10. nóvember. Þó vissulega hafi sum þeirra fengið eitt og annað að gera í tengslum við viðgerðir á bænum t.a.m. Hann segir marga deila skoðun sinni.  

„En að komast ekki með neitt af stað og það er alveg fáránlegt. Það er bara verið að slökkva ljósin. En við ætlum ekki að leyfa þeim að slökkva ljósin í bænum. Þetta er bærinn okkar. Við byggðum þennan bæ upp og við ætlum okkur að halda áfram hér,“ segir Jón Gunnar.

Vegagerðin vinnur að nýjum Bláa lóns vegi.
Vegagerðin vinnur að nýjum Bláa lóns vegi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Mestur hluti bæjarins í lagi 

En hvernig á þetta að ganga upp þegar fyrirtækin eru að fara af stað og þurfa svo að stoppa vegna eldgoss en fara svo aftur af stað. Er það gerlegt?

„Það verður alveg erfitt og við berum virðingu fyrir náttúrunni. En það sem búið er að gera af mannavöldum, þá á ég við almannavarnir, það er algjörlega glórulaust. Menn hafa ekki fengið að fara inn og sækja afurðir í og það er tjón upp á tugi milljóna,“ segir Jón Gunnar.

Hann segir að það sé ekkert nýtt að fólk í Grindavík hafi þurft að lifa með náttúrunni.

„Bærinn er alveg laskaður, en hann er ekki það laskaður að við getum ekki verið hérna. Mestur hluti af bænum er bara í lagi. Ef fyrirtæki treysta sér til þess að vera í bænum, þá eiga þau bara að fá að vera í bænum. Við vorum byrjuð á því og fengum að sofa á heimilum okkar. Það var komið bullandi líf í bænum og mikil von í mönnum. En við vorum slegin niður aftur og það var af mannavöldum. Ekki af náttúrunni,“ segir Jón Gunnar ákveðinn.

Jón Gunnar Margeirsson, framkvæmdastjóri Jóns og Margeirs ehf.
Jón Gunnar Margeirsson, framkvæmdastjóri Jóns og Margeirs ehf. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert