Nýr Landspítali með afmarkaðra hlutverk en nú

Yfirvöld gera ráð fyrir því að kostnaður við nýtt hátæknisjúkrahús við Hringbraut muni verða 210 milljarðar króna. Runólfur Pálsson, forstjóri Landspítalans, segir að umgjör nýs spítala sé ekki hugsuð í kringum hið víðfema hlutverk sem hann gegnir nú. Því þurfi breytingar að verða á starfseminni og að byggja þurfi upp þjónustu utan hans, til þess að taka við ákveðnum boltum. Legurýmum mun ekki fjölga með tilkomu nýbygginga við Hringbraut.

Runólfur er gestur í nýjasta þætti Spursmála.

„Stjórnvöld gera ráð fyrir því að hlutverk spítalans verði mun afmarkaðra en í dag en ég var líka að segja að það á eftir að skapa þau úrræði sem eiga að taka við því,“ segir Runólfur.

Hlaupa þarf hratt á næstu árum

- En hafa menn tíma, þið eruð að fara að taka spítalann í gagnið 2030?

„Þannig að við þurfum að hlaupa hratt næstu 5-6 árin.“

Nýr Landspítali rís nú af grunni við Hringbraut. Þar verða …
Nýr Landspítali rís nú af grunni við Hringbraut. Þar verða ekki fleiri legurými en í núverandi aðstöðu. mbl.is/Árni Sæberg

- Eru það öldrunarrýmin fyrst og fremst, eru þau stærsta málið?

„Nei ekki eingöngu. Vegna þess að, þá er ég að tala um þessi hefðbundnu hjúkrunarrými eins og við þekkjum þau í dag á hjúkrunarheimilunum. Við þurfum meiri þjónustu. Þeir einstaklingar sem eru innan öldrunarþjónustu Landspítala í dag þeir þurfa í sumum tilvikum, tímabundið hið minnsta, meiri þjónustu heldur en almennt er boðið upp á á þessum hefðbundnu íslensku hjúkrunarheimilum.“

Runólfur segir raunar að áskoranirnar hér á landi séu nokkuð með öðrum hætti en hjá mörgum nágrannaþjóða okkar.

„[...] Við erum með mjög sérstakar aðstæður hérna á Íslandi, bæði vegna þess að búsetan er þannig að þorri þjóðarinnar býr hér á höfuðborgarsvæðinu og í grenndinni. Við erum með einn stóran spítala sem er bakhjarl allra. Á sama tíma eru heilbrigðisþjónusta og kröfur til sjúkrahúsþjónustu hafa aukist mjög mikið. Fólki fjölgar gríðarlega þannig að við þurfum að einbeita okkur að því að veita þjónustu á mismunandi þjónustustigum sem eru við hæfi. Með öðrum orðum, ef við ætlum að nýta sjúkrahús eins og Landspítalann til að veita mjög víðtæka þjónustu áfram þá verður hún kostnaðarsamari en ella þegar um er að ræða léttvægari vandamál sem hægt væri að leysa á öðrum vettvangi. Þannig að það er bara verk að vinna í þessu,“ segir Runólfur.

Og hann segir brýnt að fara vel með skattfé almennings.

„Og stýring heilbrigðisþjónustu er mjög krefjandi mál. Því við erum að greiða fyrir þessa þjónustu að stærstum hluta úr vasa skattgreiðenda. Við verðum að fara vel með það fé. En stóra áskorunin til viðbótar er skortur á mannafla, semsagt fagfólk, að hafa nægilega mikið af því. Við getum reist hérna hin og þessi hjúkrunarheimili og við getum reist jafnvel annan spítala en við verðum líka að manna þessar stofnanir.“

Leita þarf margskonar lausna

- Er þetta óleystur vandi?

„Ég hef miklar áhyggjur af því. Þetta er vandi um víða veröld.“

- Er þetta ekki vandi um allan heim?

„Þetta er um allan heim. En það eru margar hliðar á því vandamáli líka. Við gerum miklu meira en áður. Og við gerum meiri kröfur til heilbrigðisþjónustunnar. Við þurfum fleiri til að sinna störfunum. Það hafa orðið viðhorfsbreytingar gagnvart störfum. Ef þú ferð nokkra áratugi aftur í tímann þá var þetta liggur við lífsstíll að starfa við þetta og fólk vann mjög langan dag. Það eru til mjög skýr dæmi um það varðandi lengd vakta og svo framvegis. Það er búið að stytta vinnutíma þannig að við þurfum mun fleiri starfsmenn. Við höfum ekki haft tök á því, frekar en aðrir til að mennta nægilega marga til að taka við. Þá þurfum við aðrar lausnir til að geta samt veitt þjónustuna. Við þurfum líka að tryggja gæði og svo framvegis. Það getur verið erfitt að koma þessu öllu við,“ segir Runólfur.

Byggja upp framhaldsnám innanlands

„Við Íslendingar erum í erfiðari stöðu heldur en margir aðrir. Við spjöruðum okkur ótrúlega vel hér á árum áður þrátt fyrir að læknar hafi til að mynda þurft að fara erlendis í öllum tilvikum til að stunda framhaldsnám, skiluðu sér heim. Það er ekkert sjálfgefið. Nú erum við að byggja upp sérnám hérna á Íslandi í þessum helstu greinum lækninga til að mæta þörfinni í framtíðinni. Við þurfum áfram á því að halda að framhaldsnám haldi áfram erlendis líka.“

- Til að sækja þekkinguna út?

„Já. En það eru til ýmsar aðrar leiðir líka. Það hafa skapast fleiri heilbrigðisstéttir en þessar hefðbundnu. Við þurfum að nýta þeirra starfskrafta líka eins vel og við mögulega getum. Færa jafnvel til verkefni ef við erum með ónógan fjölda starfsmanna á ákveðnum sviðum. Við þurfum að leita allskonar lausna til að ráða við þennan vanda. Mér finnst fólk ekki gera sér nægilega grein fyrir hversu stór áskorun þetta er í raun.“

Vill ekki segja vandann óleysanlegan

- Er þetta óleysanlegt?

„Ég vil nú aldrei segja það. En auðvitað erum við líka að þróa tæknilegar lausnir. En það er mikill misskilningur ef menn halda það að með því að þróa smáforrit og hugbúnað af ýmsu tagi að þá getum við bara fellt niður störf tuga og hundruða starfsmanna. Eitt af því sem er mikil áskorun við það er sú að þessar lausnir bæti ekki bara þjónustu heldur dragi líka úr mannaflaþörf. Stundum þegar verið er að innleiða svona lausnir þá eykur það álagið hjá starfsfólki. Þetta er bara til marks um það hvað þetta er flókið mál. Eitt af því sem við getum verið stolt af á Landspítala er að fjöldi t.a.m. hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða, lækna, jókst ekki þrátt fyrir þessa starfsemisaukningu.“

- Þannig að fólk er að leysa fleiri stórverkefni af hendi?

„En það sjá það allir að við getum ekki haldið endalaust áfram þannig og með einhverjum tæknilausnum og svoleiðis á næstu árum og bara haldið áfram að auka þjónustuna í takt við þörfina. Við þurfum hendur og fætur líka.“

Viðtalið við Runólf Pálsson má sjá og heyra í heild sinni hér:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert