Rannsakað sem alvarlegt flugatvik

Tyrkneska farþegaþotan féll um átta þúsund fet þegar hún flaug …
Tyrkneska farþegaþotan féll um átta þúsund fet þegar hún flaug inn í mikla ókyrrð yfir Langjökli. mbl.is

Mál tyrkneskrar farþegaþotu af gerðinni Boeing 777-300 þegar hún féll um átta þúsund fet í mikilli ókyrrð yfir Langjökli í febrúar á síðasta ári er rannsakað sem alvarlegt flugatvik hjá rannsóknarnefnd samgönguslysa.

Þetta kemur fram í frétt RÚV en þar segir að farþegaþotan hafi verið á flugi norðan Langjökuls þegar hún féll úr 35 þúsund fetum í 27 þúsund fet en við slíkar aðstæður geta súrefnisgrímur í farþegarými fallið niður.

Ragnar Guðmundsson, rannsakandi á flugsviði hjá rannsóknarnefnd flugslysa, segir í viðtali við RÚV að þetta hafi verið mjög óvenjulegar aðstæður. Ekki hafi verið lýst yfir neyðarástandi um borð en flugumferðarstjórn hafi verið látin vita.

Í skýrslu nefndarinnar segir að flugmenn farþegaþotunnar hafi náð fullri stjórn á vélinni og hafi svo haldið henni í 28 þúsund fetum. Eftir að hafa fengið stefnubreytingu frá flugumferðarstjórn út úr ókyrra loftinu var fluginu haldið áfram til Istanbúl Tyrklandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert