Afhentu Kristrúnu flokksskírteini Sjálfstæðisflokksins

Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, og Júlíus Viggó Ólafsson, formaður Heimdallar.
Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, og Júlíus Viggó Ólafsson, formaður Heimdallar. Ljósmynd/Samsett

Í dag afhentu fulltrúar Heimdallar, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, Kristrúnu Frostadóttur, formanni Samfylkingarinnar, sitt eigið flokksskírteini Sjálfstæðisflokksins.

Tilefni þess var samkvæmt Heimdellingum að hún kúventi stefnu flokksins í útlendingamálum í síðustu viku.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Heimdalli.

Taka fagnandi á móti nýjasta flokksmanni Sjálfstæðisflokksins

Heimdellingar segjast fagna því þegar fólk sjái ljósið og taka fagnandi á móti nýjasta flokksmanni Sjálfstæðisflokksins.

Heimdellingar segja tilefnið hafa verið kúvending Samfylkingarinnar í útlendingamálum.
Heimdellingar segja tilefnið hafa verið kúvending Samfylkingarinnar í útlendingamálum. Ljósmynd/Aðsend

Hægt er að sjá yfirlýsingu Heimdallar sem félagið birti á samfélagsmiðlum:

„Velkomin heim flokkssystir!

Það kom okkur Heimdellingum ánægjulega á óvart í síðustu viku þegar Kristrún Frostadóttir, nýbakaði stjörnuformaður Samfylkingarinnar, tók 180 gráðu beygju í útlendingamálum. Í viðtali Kristrúnar við Þórarinn Hjartarson í hlaðvarpinu Einni pælingu mátti heyra að öfugt við ákvarðanir hennar eigin flokks um áraraðir þegar Sjálfstæðisflokkurinn hefur lagt fram frumvörp um útlendingamál, þá er formaðurinn nú 100% sammála stefnu Sjálfstæðisflokksins.

Því ber auðvitað ávallt að fagna þegar fólk tileinkar sér sjálfstæðisstefnuna og því tókum við Heimdellingar okkur saman og afhentum Kristrúnu nýja flokksskírteini sitt! Það er mikill heiður að fá Kristrúnu til liðs við okkur.

Að vísu lenti sendinefnd Heimdallar í smá erfiðleikum við afhendingu flokksskírteinis Kristrúnar. Þrátt fyrir þá fleiri tugi milljóna sem Samfylkingin fær frá ríkinu á hverju ári þá virðist það vera málsvara vinstrisins á Íslandi um of að halda skrifstofu sinni opinni á auglýstum opnunartíma. Þrátt fyrir að það hefði nú verið mun hátíðlegra að afhenda flokksskírteini Kristrúnar á skrifstofu flokksins, þá lét sendinefnd Heimdallar það duga að skutla skírteininu inn um bréfalúguna.

Velkomin heim Kristrún, við vissum alltaf að innst inni í hjarta þínu leyndist sannur sjálfstæðismaður. Við hlökkum til að sjá þig í Valhöll á næsta laugardagsfundi!“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert