Andlát: Egill Sigurðsson

Egill Sigurðsson, bóndi og fyrrverandi oddviti Ásahrepps, lést á Landspítalanum sunnudaginn 11. febrúar sl., 64 ára að aldri.

Egill fæddist 2. júní 1959 á Stokkalæk á Rangárvöllum, sonur hjónanna Sigurðar Egilssonar bónda þar og Kristínar Jóhannesdóttur Oberman húsmóður.

Egill lauk gagnfræðaprófi frá Grunnskólanum á Hellu og að loknu námi vann hann ýmis störf sem til féllu, svo sem vertíðarstörf í Vestmannaeyjum, við graskögglaframleiðslu í Gunnarsholti, sláturhússtörf og verktöku við heyskap fyrir aðra bændur.

Hann hóf búskap á Berustöðum II í Ásahreppi árið 1979 ásamt Guðfríði Erlu Traustadóttur eiginkonu sinni og þau byggðu búskapinn þar upp frá grunni en mjólkurframleiðsla hafði legið niðri í tæp fimm ár á Berustöðum þegar þau tóku við jörðinni. Hjónin brugðu búi í janúar á þessu ári og nýir eigendur tóku við jörðinni.

Egill tók virkan þátt í félagsstörfum, bæði í Ásahreppi og í hagsmunasamtökum bænda. Hann var varamaður í hreppsnefnd Ásahrepps 1995-1996 og kjörinn fulltrúi 1998-2022 og oddviti um tíma. Hann var formaður héraðsnefndar Rangárvallasýslu og var félagi í Búnaðarfélagi Ásahrepps, Ungmennafélagi Ásahrepps og veiðifélaginu. Hann sat í ýmsum nefndum fyrir hönd sveitarfélagsins gegnum árin og var endurskoðandi kirkjureikninga.

Hann sat í stjórn Búnaðarsambands Suðurlands, var einn af stofnendum Félags kúabænda á Suðurlandi og fulltrúi félagsins við stofnun Landssambands kúabænda árið 1986. Þá sat hann á búnaðarþingi í mörg ár.

Egill sat í stjórn Mjólkurbús Flóamanna 2003-2005. Þá sat hann í stjórn MS-Auðhumlu frá 2005 til 2018, þar af sem stjórnarformaður Auðhumlu frá 2007 og Mjólkursamsölunnar frá 2008.

Egill var virkur félagi í Taflfélagi Rangæinga á yngri árum og varð einu sinni meistari félagsins.

Eftirlifandi eiginkona Egils er Guðfríður Erla Traustadóttir. Börn þeirra eru Andri Leó, Signý og Eygló Kristín. Barnabörnin eru sex.

Útför Egils fer fram frá Selfosskirkju föstudaginn 23. febrúar klukkan 13.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert