„Bara tekur það og hendir því“

Vilhjálmur Jóhann Lárusson, veitingamaður í Vör í Grindavík, er búinn …
Vilhjálmur Jóhann Lárusson, veitingamaður í Vör í Grindavík, er búinn að opna hjá sér en segir innkaupin geta verið erfið þar sem hann viti ekkert hve margir setjist að borðum hans. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ef ég fæ vatn á morgun opna ég á fimmtudaginn,“ segir Vilhjálmur Jóhann Lárusson, veitingamaður í Vör í Grindavík, „þeir lofa því á morgun,“ bætir hann við og á við yfirvöld vatnsveitumála og þá er viðgerðum sinna.

„Það er kannski enginn að fara að koma og gista hérna en það er fullt af atvinnumönnum sem eru að vinna í bænum, verktakar og svoleiðis, og við gerum ráð fyrir að þeir komi hingað. Þeir eru strax farnir að hafa samband þannig að ég hef ekki áhyggjur af því að enginn komi,“ segir vertinn bjartsýnn.

Aðspurður kveður hann reksturinn hafa verið rússíbanareið undanfarið. „Þú ert hérna í nokkra daga og svo ferðu út og kemst ekki inn og það eyðileggst allt í kælum og svoleiðis. Þú bara tekur það og hendir því og svo heldurðu áfram,“ segir veitingamaður af einurð. Þá segir hann ekki hlaupið að því að panta inn mat, „þú veist ekki hvort það koma hundrað manns eða tvö hundruð í hádeginu“, segir hann og glottir við tönn.

„Ég get alveg hugsað mér að fara heim til mín …
„Ég get alveg hugsað mér að fara heim til mín og gista og ég á eftir að gera það, einn eða hvað veit ég ekki.“ mbl.is/Eggert Jóhannesson

Búsetuákvörðunin stór og þung

Kveður Vilhjálmur peningalegt tjón ekki svíða mjög, hann lifi bara með því, en í framhaldinu er hann spurður hvaða tilfinning fylgi því að taka þá stóru ákvörðun hvort búa skuli í bænum áfram eður ei. Vilhjálmur er borinn og barnfæddur Grindvíkingur.

„Hún er erfið en þar sem maður er með börn er ég ekki að koma hérna á næstunni. En ég get alveg hugsað mér að fara heim til mín og gista og ég á eftir að gera það, einn eða hvað veit ég ekki, en það er ekkert að húsinu mínu og ég get alveg verið þar,“ segir hann.

Vilhjálmur hefur ekki ákveðið hvort hann hyggist selja hús sitt. „Það er bara verið að skoða hlutina og hvernig útspilið verður hjá ríkisstjórninni,“ segir hann að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert