Vill betri aðlögun og vinna gegn ójöfnuði

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, segir mjög mikilvægt að ríkisstjórnin nálgist málefni útlendinga með heildstæðari hætti. Aukin samfélagsfræðsla og tungumálakennsla séu lykilatriði í inngildingu útlendinga í samfélagið. 

Ríkisstjórnin sam­mælt­ist í dag um aðgerðir í mál­efn­um um­sækj­enda um alþjóðlega vernd, flótta­fólks og inn­flytj­enda.

Í samtali við mbl.is sagði ráðherrann þörf á að horfa á allt ferlið í heild sinni frá því að manneskja komi til landsins, hvort sem það er innflytjandi frá ESB eða einstaklingur sem komi hingað í gegnum verndarkerfið.

„Börn innflytjenda eru að fá færri tækifæri“

„Það snýr þá að aðlögun að samfélaginu, því að ná rótfestu hérna og inngildingu flóttafólks og annarra innflytjenda hér á landi,“ sagði ráðherrann og bætti við að lykilatriði í þeirri stefnu væri að vinna gegn stéttaskiptingu og ójöfnuði í samfélaginu óháð því hvaðan fólk kæmi. 

„Við erum að sjá að börn innflytjenda eru að fá færri tækifæri, þau eru að detta úr skóla. Við erum að sjá að íslenskukunnátta innflytjenda, almennt, er ekki nærri því nógu góð sem dregur úr líkum á að þau geti náð rótfestu í samfélaginu og fengið að blómstra hérna.“

Spurður hvernig slík stefna muni raungerast innan hans ráðuneytisins segir ráðherrann nú unnið að löggjöf um inngildingu og móttöku fólks hér á landi. Einnig sé framhaldsfræðsla sem lýtur að íslenskukennslu fyrir útlendinga til endurskoðunar. 

„Við erum að horfa til þess að auka samfélagsfræðslu til innflytjenda og þá erum við ekki síst að horfa til þess hvers konar samfélag er Ísland. Hvernig áttu að leita upplýsinga, hvernig kerfið virkar og hvaða gildi eru það sem íslenskt samfélag byggir á. Þar með talið jafnrétti kynjanna, hinsegin fólks, réttindamál fatlaðs fólks, tjáningarfrelsi o.s.frv.“

Auka tækifæri innflytjenda á vinnumarkaði

Hann segir slíka heildræna stefnu einnig horfa til þess að auka tækifæri innflytjenda sem hingað koma, sum hver mjög vel menntuð en fái ekki menntun sína metna að verðleikum, né þá reynslu sem þau hafa öðlast í fyrri störfum sínum annars staðar í heiminum.

„Það er gott fyrir samfélagið að reyna að nýta það betur.“

Þá nefnir hann einnig sem dæmi að mikilvægt sé að koma á breytingu er varða atvinnuleyfi útlendinga. 

„Að breyta því með þeim hætti að þú sért ekki háður vinnuveitenda þínum. Að atvinnuleyfið sé tengt einstaklingnum en ekki vinnuveitenda þínum. Með því móti eigir þú ríkari möguleika á að geta skipt um vinnu án þess að óttast að þurfa fara úr landi. Þetta er rosalega stórt réttindamál fyrir útlendinga sem starfa hér á landi.“

Staðan ekki góð

Spurður um innleiðingu búsetuúrræða fyrir hælisleitendur og flóttafólk segir ráðherrann þar tvennt sem sérstaklega þurfi að líta til en það sé annars vegar móttökuúrræði fyrir fólk sem hingað sé nýkomið og hvers kyns búsetuúrræði verði fyrir fólk sem hafi fengið endanlega synjun. 

„Staðan í dag í þeim málum – ég held við getum öll verið sammála um að hún er ekki nógu góð. Þannig við viljum nálgast þetta með víðtækari hætti og setja af stað starfshóp sem að ræðir þá hvaða möguleikar séu í stöðunni,“ segir Guðmundur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert