Yfirgefur húsið hinsta sinni

Þórólfur Már Þórólfsson yfirgefur hús sitt við Mánagötu í Grindavík …
Þórólfur Már Þórólfsson yfirgefur hús sitt við Mánagötu í Grindavík í síðasta sinn í dag, fæddur og uppalinn Grindvíkingur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við höfum bara verið hjá vinum og kunningjum, flakkað á milli,“ segir Þórólfur Már Þórólfsson, íbúi við Mánagötu í Grindavík sem var að ljúka við að tæma húsið þegar hann ræddi við mbl.is í morgun. Síðast voru þau kona hans í herbergi hjá vinkonu hennar þar sem tengdafaðir Þórólfs svaf í sófanum.

Húsið við Mánagötu segir Þórólfur vera í lagi, „það er mjög vel byggt“, segir hann. Þau hjónin séu þó staðráðin í að flytja búferlum og taka tilboði ríkisstjórnar landsins um að kaupa af þeim húsið.

Fékk taugaáfall þegar ósköpin hófust

„Ég legg það ekki á hana,“ segir Þórólfur og vísar til konu sinnar og áframhaldandi búsetu í Grindavík en hún fékk að sögn Þórólfs taugaáfall þegar hamfarirnar hófust í fyrra. Hann er fæddur og uppalinn í bænum en hyggst þó bregða þar búi eins og komið er.

Segir hann þau vel geta hugsað sér að halda til erlendis hluta úr ári en þau hafi einmitt alið manninn á Filippseyjum í desember og janúar. „Við reiknum með að kaupa okkur eitthvað lítið og svo verðum við bara á flakki milli landa,“ segir Þórólfur Már Þórólfsson að lokum sem er að yfirgefa hús sitt í Grindavík í síðasta sinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert