Ætla að herða útlendingalög

Guðrún Hafsteinsdóttir.
Guðrún Hafsteinsdóttir. mbl.is/Eyþór

Samstaða um breytingar á útlendingalögum náðist í ríkisstjórn í gær, en í þeim felst að dregið verður úr útgjöldum til málaflokksins, m.a. með því að fækka umsóknum þeirra sem ekki uppfylla skilyrði um alþjóðlega vernd. Frumvarpi dómsmálaráðherra þessa efnis var dreift á Alþingi í gær og verður að líkindum mælt fyrir málinu á þingi í þessari viku. Þetta staðfestir Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra í samtali við Morgunblaðið.

„Þetta eru stórtíðindi. Ríkisstjórnin sammæltist um heildarsýn í málefnum fólks sem leitar verndar á Íslandi, hælisleitenda sem og innflytjenda. Við sammæltumst einnig um aðgerðir í samræmi við okkar heildarsýn og fyrst förum við í breytingar á útlendingalögum. Þetta eru einhverjar mestu breytingar sem gerðar hafa verið í mörg ár,“ segir Guðrún.

mbl.is/Eyþór

Draga úr útgjöldum

Í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins kemur fram að taka eigi á málefnum umsækjenda um alþjóðlega vernd, flóttafólks og innflytjenda, með heildstæðum hætti með aukinni samhæfingu á milli ráðuneyta og stofnana. Markmiðið sé að stuðla að meiri skilvirkni og skýrari framkvæmd innan málaflokksins og sérstaklega verði horft til framkvæmdar þessara mála annars staðar á Norðurlöndunum og samræmi aukið í regluverki á milli landa.

Með þessu er ætlunin að draga úr útgjöldum og forgangsraða betur þeim fjármunum sem í málaflokkinn fara, en með fækkun umsókna um alþjóðlega vernd sem ekki uppfylla skilyrði um slíka vernd sparist fé sem verði að hluta nýtt til aukningar framlaga til íslenskukennslu, aðstoðar við börn í skólum og samfélagsfræðslu sem hjálpi fólki til virkrar þátttöku í íslensku samfélagi.

Meðal aðgerða sem ráðist verður í til að hraða afgreiðslu umsókna um alþjóðlega vernd er að afgreiðslutími umsókna verður styttur í 90 daga á hvoru stjórnsýslustigi og unnið verður að því að koma upp búsetuúrræðum fyrir slíka umsækjendur á öllum stigum málsmeðferðarinnar. Þá er ætlunin að umsóknarferli um alþjóðlega vernd hefjist í sérstakri móttökumiðstöð. Einnig að málsmeðferðartími styttist og stuðlað verði að skilvirkum brottflutningi fólks að fenginni synjun.

Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert