Andlát: Hildur Hermóðsdóttir

mbl.is/Kristinn Magnússon

Hildur Hermóðsdóttir, kennari og bókaútgefandi, lést á Hrafnistu Boðaþingi sunnudaginn 18. febrúar, 73 ára að aldri.

Hildur fæddist 25. júlí 1950 í Árnesi í Aðaldal og ólst þar upp. Foreldrar hennar voru hjónin Jóhanna Álfheiður Steingrímsdóttir og Hermóður Guðmundsson en þau voru bændur og höfðu með höndum veiðiheimilisrekstur í Árnesi.

Hildur stundaði nám við Héraðsskólann á Laugum og síðan Kennaraskóla Íslands þar sem hún útskrifaðist 1972. Vorið 1980 lauk hún BA-prófi í bókmenntafræði frá Háskóla Íslands með sögu og íslensku sem aukagreinar.

Hildur starfaði sem grunnskólakennari frá árinu 1972 auk dagskrárgerðar við RÚV og umfjöllunar um bækur í dagblöðum. Hún kenndi íslensku og bókmenntir við Fósturskóla Íslands árin 1982-1986 en starfaði eftir það sem ritstjóri barnabóka hjá Bókaútgáfu Máls og menningar frá 1986 til ársins 2000 að hún stofnaði Bókaútgáfuna Sölku ásamt Þóru Sigríði Ingólfsdóttur. Hildur tók síðan alfarið við Sölku árið 2002 og rak umfangsmikla útgáfu til haustsins 2015 að hún seldi fyrirtækið og stofnaði Textasmiðjuna.

Hildur sat í stjórn Máls og menningar þegar hún starfaði þar, sat einnig mörg ár í stjórn Félags íslenskra bókaútgefenda, nokkur ár í stjórn IBBÝ-samtakanna og nokkur ár í stjórn Náttúruverndarsamtaka Íslands. Um árabil sat hún í stjórn Þingeyingafélagsins í Reykjavík og var þar um skeið gjaldkeri og síðan formaður. Hún var einnig stofnfélagi og varamaður í stjórn félagsins Vinir íslenskrar náttúru.

Árið 2022 sendi Hildur frá sér bókina Ástin á Laxá, Hermóður í Árnesi og átökin miklu en þar var sögð sagan af því þegar Þingeyingar tóku til sinna ráða til verndar náttúrunni og sprengdu stíflu í Laxá með dínamíti í eigu virkjunarinnar árið 1970.

Eiginmaður Hildar var Jafet Sigurður Ólafsson framkvæmdastjóri. Hann lést í nóvember sl. Börn Jafets og Hildar eru Jóhanna Sigurborg, Ari Hermóður og Sigríður Þóra. Barnabörnin eru fimm.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert