Borgin rýfur 80 ára hefð og bannar akstur íbúa

Íbúar við Bergþórugötu höfu lagt við enda innkeyrslunnar í 80 …
Íbúar við Bergþórugötu höfu lagt við enda innkeyrslunnar í 80 ár en nýlega var sett upp gönguskilti til að loka fyrir hana. ljósmynd/ja.is/aðsend

Íbúar við Bergþórugötu 33 í miðbæ Reykjavíkur standa í stappi við borgaryfirvöld vegna fyrirvaralausrar ákvörðunar Reykjavíkurborgar um að skerða þinglýstan umferðarrétt íbúa sem ekið hafa eftir stíg sem liggur að porti þar sem íbúar hafa lagt bílum sínum í 80 ár. Íbúi segist ætla í hart við borgina vegna málsins.  

Umferðarrétturinn hefur fylgt lóðinni frá því húsið var byggt árin 1927-1930 og hafa bílar farið þar um frá 1940-1950 eftir að bílaeign varð almenn. 

Umræddur umferðarrétturinn er tilgreindur í lóðaleigusamningi sem síðast var endurnýjaður árið 2006 til 75 ára. Í honum er tilgreint að íbúar við Bergþórugötu 33 hafi rétt til að nýta 6,3 metra breiðan stíginn. 

Það breyttist hins vegar í síðastliðinn september þegar Reykjavíkurborg setti íbúum að óvörum upp gönguskilti við innkeyrsluna og útbjó bílastæði sem þveraði fyrir hana. Þá voru gular brotalínur sem höfðu skilgreint innkeyrsluna þvegnar í burtu. 

Við nánari eftirgrennslan komust íbúar að því að deiliskipulagi fyrir svokallaðan Njálsgötureit hafði nýlega verið breytt á þann veg að stígurinn er nú skilgreindur sem grænt svæði og leiðir hann á annan stíg sem þverar innkeyrsluna. Enn fremur að þinglýstur umferðarréttur þeirra veiti þeim eingöngu heimild til að ganga eftir stígnum að inngangi eignar sinnar. Svo vill til að þennan sama göngurétt hafa allir aðrir. 

Töldu að um mistök væri að ræða  

„Það var ekki rætt við okkur íbúanna þegar þetta deiliskipulag var gert og töldu við íbúarnir að um augljós mistök væri að ræða og yrði leiðrétt,“ segir Stefanía Guðjónsdóttir, íbúi í húsinu, í samtali við mbl.is. Ömmubræður hennar byggðu húsið sem hefur verið í eigu fjölskyldunnar síðan. 

Hún og annar íbúi í byggingunni hafa leitað réttar síns frá því lokað var fyrir innkeyrsluna í september. Hvati hennar að því að berjast fyrir réttindum sínum segir hún að sé ekki síst vegna þess að glímir við veikindi sem tekið hafa toll af orku hennar.

Því hafi hún síður tök á því að „keyra hring eftir hring“ í hverfinu í von um að finna stæði. Þá hefur hún alls fengið 8 stöðumælasektir í hverfinu á skömmum tíma þrátt að hafa lagt löglega og að vera með skilgreint merki fyrir fatlaða í bíl sínum. 

Búið er að útbúa stæði í stað innkeyrslunnar sem áður …
Búið er að útbúa stæði í stað innkeyrslunnar sem áður var þar. Ljósmynd/aðsend

Með þinglýst gönguréttindi 

Stefanía hefur sent kröfubréf á umhverfis og skipulagssvið borgarinnar þar sem hún krafðist þess að réttindi íbúa yrðu virt en án árangurs. 

„Borgin segir að orðalagið stígur sé notað í leigusamningnum frá 1930/31 og þar með sé verið að tala um göngustíg. En það eru engin rök. Hvorki Vitastígur né Barónsstígur eru göngustígar heldur götur keyrðar af bílum og með bílastæði. Þetta er bara það orðalag sem var notað í þá daga,“ segir Stefanía. 

Þá tók hún upp á því að senda bréf á innra eftirlit borgarinnar en fékk þar þau svör að borgin líti svo á að umferðarrétturinn lúti að gangandi umferð. 

„Hugmyndir borgarinnar er sú að ég sé með þinglýst gönguréttindi þ.e. að mín umferðréttindi séu bara til að ganga að húsinu. Þannig að ég sem húseigandi þarf þinglýst gönguréttindi en allir aðrir þurfa engin réttindi eru bara frjálsir ferða sinna. Reykjavíkurborg segir að þinglýst réttindi skipti bara engu máli heldur að hún eigi þetta og megi þetta,“ segir Stefanía. 

Stígurinn leiðir að inngangi eignarinnar.
Stígurinn leiðir að inngangi eignarinnar. ljosmynd/aðsend

Leikskóli í stofunni næstur? 

Hún segir kröfur íbúa þrenns konar. Að grasagarður með trjám verði fjarlægður úr skipulagi. Gönguskilti verði fjarlægt og að bílastæðalína sem lokar porti verði fjarlægð ásamt því að gul brotalína verði máluð við innkeyrslu á ný.

„Garðurinn minn er líka þinglýst leigulóðaplagg. Geta þau þá bara gert leiksvæði þar. Og húsið mitt er á leigulóð. Má ég þá eiga von á því að það verði bara opnaður leikskóli í stofunni hjá mér,“ spyr Stefanía.

„Við erum búin að leggja bílum þarna í um 80 ár og viljum bara fá að vera í friði,“ segir Stefanía.

Hún segist staðráðin í að fara alla leið með málið og muni leita til dómstóla. „Ég mun fara alla leið með þetta,“ segir Stefanía. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert