Erfðarannsókn vegna Tyrkjaránsins

Horft yfir Vestmannaeyjar þar sem ræningjar frá Alsír og Marokkó …
Horft yfir Vestmannaeyjar þar sem ræningjar frá Alsír og Marokkó gerðu strandhögg sumarið 1627 og rændu fjölda manns sem hnepptir voru í þrældóm í Norður-Afríku. mbl.is/Árni Sæberg

Finna á ummerki Tyrkjaránsins í erfðamengi Íslendinga hérlendis og finna afkomendur Íslendinganna, sem rænt var, í Alsír gangi þingsályktunartillaga eftir sem sett var fram í gær á Alþingi.

Í ályktuninni er kveðið á um að forsætisráðherra verði falið að skipa nefnd til undirbúnings viðburðar árið 2027 í tilefni þess að þá verða 400 ár liðin frá Tyrkjaráninu sumarið 1627 auk þess vinna eigi að fyrrnefndri rannsókn Íslenskrar erfðagreiningar.

Skal nefnd forsætisráðherra meðal annars standa fyrir kaupum á minnisvarða um ránið, standa fyrir málþingi þar um og stofna fræðslusjóð.

Ránsmenn þeir, eru hlut áttu að máli í Tyrkjaráninu, voru frá Alsír og Marokkó og gerðu þeir strandhögg á þremur stöðum á landinu, í Grindavík, austur á fjörðum og í Vestmannaeyjum en þaðan voru flestir numdir á brott. Allt í allt voru hátt í 400 Íslendingar brottnumdir og hnepptir í þrældóm í Sale í Marokkó og Algeirsborg og hátt í 50 drepnir eða limlestir í ráninu, segir í þingsályktunartillögunni sem fimm þingmenn Sjálfstæðisflokksins lögðu fram í gær.

Niðurstöður kynntar í Vestmannaeyjum

„Í tillögu þessari er lagt til að í Vestmannaeyjum, þar sem blóðtaka ránsins var langmest, verði reistur minnisvarði um þennan heimssögulega atburð sem verði afhjúpaður 16. júlí 2027 að viðstöddum fulltrúum þjóðþinga þeirra landa sem helst komu við sögu, þ.e. Danmerkur, Hollands, Alsír og Marokkó auk fleiri landa. Forsætisráðherra verði falið að skipa þriggja manna nefnd til að undirbúa kaup á minnisvarða um atburðinn,“ segir í tillögunni.

Eins er lagt til að nefndin stofni fræðslusjóð og skipi honum stjórn. Skuli sjóðurinn starfa tímabundið og styrkja fræðsluverkefni um Tyrkjaránið í hlutaðeigandi sveitarfélögum á Austfjörðum, í Vestmannaeyjum og Grindavík árið 2027.

Gert sé ráð fyrir að niðurstöður rannsóknar Íslenskrar erfðagreiningar verði kynntar í Vestmannaeyjum 16. júlí 2027, þann dag sem 400 ár verða liðin frá því aðkomumenn fóru þar um ránshendi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert