Oddný rýfur þögnina um orð Kristrúnar

Oddný kýs ekki að tjá sig um orð Kristrúnar í …
Oddný kýs ekki að tjá sig um orð Kristrúnar í hlaðvarpinu Ein pæling þar sem hún hefur ekki hlustað á það viðtal. Samsett mynd

Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, segir að ekki sé hægt að setja takmörk á það hversu margir hælisleitendur koma hingað til lands. Hún segir flokkinn ekki hafa breytt um stefnu í málaflokki útlendinga og að það sé aðeins gert á landsfundi. Þetta segir hún í samtali við mbl.is

Oddný hlustaði á Kristrúnu Frostadóttur, formann Samfylkingarinnar, tala um útlendingamálin í Sprengisandi á sunnudag og kveðst hún ekki hafa heyrt Kristrúnu tala á skjön við stefnu flokksins þar.

Hún tekur þó fram að hún hafi ekki heyrt önnur viðtöl þar sem Kristrún tjáir sig um útlendingamál og því tjái hún sig ekki um það sem Kristrún kann að hafa sagt í þeim viðtölum, eins og til dæmis í hlaðvarpinu Ein pæling.

„Samfylkingin hefur ekki breytt um stefnu í málaflokknum því við ákveðum stefnuna á landsfundi. Og ef við ætlum að breyta henni þá gerum við það þar,“ segir Oddný sem hefur hingað til ekki tjáð sig við fjölmiðla um orð Kristrúnar fyrr en þingflokkurinn væri búinn að ræða stöðuna, sem hún segir þingflokkinn nú búinn að gera.

Ekki hægt að setja takmörk á fjölda hælisleitenda

Fyrir rúmlega viku síðan birtist viðtal við Kristrúnu í hlaðvarpinu Ein pæling þar sem hún sagði hælisleitendakerfið hér á landi vera ósjálf­bært, að Ísland ætti ekki að skera sig úr frá Norður­lönd­um og að ekki væri hægt að vera með opin landa­mæri sam­hliða vel­ferðar­kerf­inu.

Þá kvaðst Kristrún hafa skiln­ing á áform­um Guðrún­ar Haf­steins­dótt­ur dóms­málaráðherra um lokað bú­setu­úr­ræði.

Oddný segir að þingflokkurinn muni ræða útlendingafrumvarp Guðrúnar á föstudag og ætlar því ekki að tjá sig um það nánar. Frumvarp um lokað búsetuúrræði er aðskilið útlendingafrumvarpinu.

Aðspurð telur hún ekki of marga hælisleitendur koma til landsins. Hún spyr hvaða hóp það ætti að bitna á og nefnir sem dæmi hælisleitendur frá Úkraínu.

„Komi fólk hingað þá höfum við ákveðnum skyldum að gegna gagnvart þeim. Við getum ekki sett einhverja kvóta,“ segir Oddný og vísar í alþjóðasáttmála sem Ísland hefur undirgengist.

Tekur ekki undir það að hælisleitendur séu að sliga innviði

Guðmundur Árni Stefánsson, varaformaður Samfylkingarinnar, sagði í samtali við mbl.is á dögunum að ófremdarástand ríkti í útlendingamálum. Spurð hvort að umræðan um málaflokkinn væri að hennar mati á réttri leið í flokknum segir hún svo vera.

„Umræðan innan Samfylkingarinnar er alveg á réttri leið. Ég er búin að tala við mjög marga um málið undanfarna daga en ég get ekki tekið undir það að fólk sem að leitar hér eftir alþjóðlegri vernd sé að setja innviði samfélagsins á hliðina. Það er ekki málflutningur sem ég get tekið undir. Hins vegar þurfum við að gera betur í málefnum innflytjenda, og sérstaklega þegar kemur að börnum. Við þurfum að mæta börnunum, hverju og einu barni þar sem það er statt,“ segir Oddný.

Hún segir að það þurfi að gera betur í að taka á móti fólki og að hér megi ekki myndast stéttskiptir jaðarhópar í samfélaginu.

mbl.is hefur reynt að ná í framafólk í Samfylkingunni í dag vegna málsins. Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, baðst undan viðtali sem og Helga Vala Helgadóttir, fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar, sem hefur verið gagnrýnin á orð Kristrúnar. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert