Ógnaði starfsmanni með hnífi til að fá sígarettur

Ljósmynd/Colourbox

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt karlmann í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir rán. 

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu ákærði manninn 14. nóvember fyrir að hafa mánudaginn 9. maí 2022 tekið upp hníf og ógnað starfsmanni verslunar og krafið hann um að afhenda sér sígarettupakka sem maðurinn hafði með sér á brott. 

Fram kemur í dómi héraðsdóms, sem féll 12. febrúar en var birtur í gær, að maðurinn hafi játað brot sín skýlaust og lýst því fyrir dómi að hann iðrist gjörða sinna. 

„Þá sagði hann andlegt ástand sitt hafa verið slæmt þegar hann framdi brotið og hefði hann leitað sér aðstoðar vegna þess og voru af hans hálfu lögð fram gögn því til staðfestingar. Til refsiþyngingar er litið til þess að um alvarlegt brot er að ræða og við framkvæmd þess notaði ákærði hættulegt vopn,“ segir í dómnum.

Manninum var jafnframt gert að greiða 500.000 kr. í málsvarnarþóknun skipaðs verjenda síns. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert