Skoðun á stærstu sprungunum hafin

Ljóst að það mun taka talsverðan tíma að ljúka jarðkönnun.
Ljóst að það mun taka talsverðan tíma að ljúka jarðkönnun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Vinna er hafin við skoðun á stærstu sprungunum í Grindavík sem hafa hreyfst hvað mest í jarðhræringunum síðustu vikur og mánuði. Jarðkönnun fór formlega af stað fyrir fjórum vikum og er ljóst að hún mun taka talsverðan tíma. 

Jarðkönnunin er hluti af heildaráhættumati fyrir Grindavík og hefur þann tilgang að auka öryggi einstaklinga með því að rannsaka og kortleggja sprunguhættu. 

Talsverðan tíma tók að skipuleggja verkefnið og útbúa aðgerðaáætlun til að stuðla að kerfisbundinni rannsókn á svæðinu sem myndi nýtast til framtíðar.

Skipta þurfti bænum niður í hólf af viðráðanlegri stærð fyrir túlkun, virkja og skilgreina hlutverk samstarfsaðila og ákveða hvaða rannsóknir/aðgerðir yrði að framkvæma. Þetta kemur fram í tilkynningu frá almannavörnum.

Staða jarðkönnunar 

Framkvæmd verkefnisins var flokkuð í þrjá fasa. Í fasa eitt er unnið að því að tryggja öruggt aðgengi viðbragðsaðila sem sinna verðmætabjörgun. Í fasa tvö er unnið að opnun Grindavíkur með áherslu á að hefja rekstur fyrirtækja og í fasa þrjú er unnið að opnun Grindavíkur með áherslu á framtíðar búsetu á svæðinu. 

Í aðgerðaráætlun er Grindavíkurbæ síðan skipt niður í hólf og í hverju hólfi eru skilgreind undirhólf, vegir, götur, vinnusvæði eða opin svæði sem öll eru til skoðunar.

Á mynd með aðgerðaráætluninni má sjá að bærinn er grænmerktur þar sem jarðkönnun er lokið og ekki er talin þörf á frekari rannsóknum. Appelsínugulmerktur þar sem frekari aðgerða eða rannsókna er þörf til að ljúka jarðkönnun. Gulmerktur þar sem jarðkönnun er hafin og túlkun í vinnslu og rauðmerktur þar sem jarðkönnun er ekki hafin. 

Framvinda jarðkönnunarinnar í heild þar sem fasa eitt, tvö og …
Framvinda jarðkönnunarinnar í heild þar sem fasa eitt, tvö og þrjú er slegið saman. Á myndinni má einnig sjá merktar sprungur, afgirt svæði og viðgerðir. Kort/Almannavarnir

Jarðkönnun mun taka talsverðan tíma

Í tilkynningu frá almannavörnum segir að um þrjátíu einstaklingar hafa komið að verkefninu sem hefur gengið ágætlega að manna. Það sé þó ljóst að jarðkönnun á allri Grindavík muni taka talsverðan tíma. Auk þess sem mikilvægt sé að girða af svæði þar sem grunur leikur á um sprungur og þar sem frekari jarðkönnun þarf að fara fram. 

Jafnframt segir að mikilvægt sé að koma sem skýrustu upplýsingum til fólks um hvaða svæði beri að varast í Grindavík. Þrátt fyrir það ríkir enn mikið óvissa um opin svæði og eru stærri sprungur, Stamhólagjáin og svæðin sunnan og norðan við þekktar sprungur sérstaklega nefnd í þessu samhengi.  

„Rétt er að girða þessi svæði af þangað til jarðkönnun er lokið og gæta þarf að öðrum mótvægisaðgerðum gagnvart þeim hættum sem þar kunna að vera til staðar. Fundist hafa vísbendingar um stór holrými á Hópsbraut, Vesturhóp og Suðurhóp sem tengjast Stamhólagjánni. Einnig tengist Ránargatan og Austurvegurinn gjánni og allar lóðir austan Víkurbrautar,“ segir í tilkynningunni og ítrekað að öll þessi svæði þurfi að skoða sérstaklega með mikilli varkárni.

Óaðgengilegar og hættulegar sprungur

Þá segir að vinna sé hafin við skoðun á stærstu sprungum bæjarins, sem hreyfst hvað mest í jarðhræringunum. Myndin hér að neðan sýnir hvar þessar sprungur eru staðsettar og hvað er búið að skoða með jarðsjá á dróna.

Jarðkönnun á þessum sprungum fellur undir alla þrjá fasa jarðkönnunar, en sprungurnar eru á mörgum stöðum óaðgengilegar og hættulegar og því hafa þau svæði ekki verið í forgangi.

Vinna er hafin við skoðun á stærstu sprungunum.
Vinna er hafin við skoðun á stærstu sprungunum. Kort/Almannavarnir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert