Snæþór sá sem var dæmdur fyrir grófar líkamsárásir

Ekki var talið sannað í málinu að Snæþóri hafi búið …
Ekki var talið sannað í málinu að Snæþóri hafi búið sá ásetningur að drepa konuna. mbl.is/Þór

Maðurinn sem dæmdur var í Héraðsdómi Reykjavíkur í fjögurra ára óskilorðsbundið fangelsi í síðustu viku heitir Snæþór Helgi Bjarnason. mbl.is greindi frá niðurstöðu dómsins fyrir viku, en dómurinn var fyrst birtur í gær.

Var Snæþór sakfelldur fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás gagnvart fyrrverandi kærustunni sinni en hann réðst á hana með kaldrifjuðum hætti þrívegis.

Í gær var svo greint frá því að Landsréttur hafi fellt úr gildi úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur sem kvað á um að hann skyldi sæta gæsluvarðhaldi í sex mánuði meðan áfrýjunarfrestur rennur út. 

Sparkaði í hnakka konunnar þar sem hún lá

Í dóminum kemur fram að Snæþór hafi verið sakfelldur fyrir að hafa hrint fyrrverandi kærustu sinni niður tröppur af stigapalli í stigagangi. Í framhaldi af því sló Snæþór og sparkaði í höfuð og andlit konunnar og sparkaði ítrekað í vinstri síðu konunnar.

Hún lá svo á jörðinni með höfuðið grúfið í jörðina og hann sparkaði svo í hnakka hennar.

Snæþór var einnig ákærður fyrir að hafa beitt konuna ofbeldi í íbúð fyrr um kvöldið en var ekki sakfelldur fyrir það. Var ekki talin lögfull sönnun fyrir sakfellingu.

Reif hár úr hársverðinum og braut tönn

Að auki var Snæþór sakfelldur fyrir að hafa seinna sama kvöld slegið, kýlt og sparkað ítrekað í líkama og höfuð konunnar þegar þau voru saman í skrúðgarði. Hélt hann henni niðri þar sem hún lá á jörðinni, reif í hár hennar og hélt um munn hennar þannig að hún átti erfitt með andardrátt.

Konan hlaut eymsli af þessum tveimur árásum sem sáust á hársverði, hnakka og gagnauga.

Þá voru merki um að hár hefðu verið rifin úr hársverði hennar, hún hafði brotna tönn og blóðnasir. Konan var með eymsli yfir kjálkaliðum og tognun á kjálka, mar á hálsi, hægra brjósti og öllum útlimum.

Hélt höfði konunnar ofan í læk

mbl.is hefur áður greint frá annarri líkamsárás sem Snæþór var ákærður fyrir gagnvart sömu konu og sakfelldi Héraðsdómur Reykjavíkur hann fyrir þau brot.

Snæþór var sakfelldur fyrir að hafa slegið konuna þar til hún féll til jarðar, dregið hana að læk sem var í grenndinni, tekið hana hálstaki og haldið höfði hennar undir yfirborði vatnsins.

Snæþór dró hana svo aftur upp úr læknum, sparkaði og trampaði á höfði, andliti og víðs vegar annars staðar á líkama konunnar. Atlögunni lauk svo ekki fyrr en vitni kom þar að og kallaði til hans þannig hann hljóp á brott.

Var hann sakfelldur fyrir þau brot en þau voru talin vera sérstaklega hættuleg líkamsárás. Ákæruvaldið krafðist sakfellingar fyrir tilraun til manndráps en ekki tókst að sanna ásetning Snæþórs til að bana konunni.

Einnig var Snæþór sakfelldur fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni. 

Konunni voru dæmdar 2,5 milljónir í miskabætur. Litið var til þess við ákvörðun fjárhæðar miskabóta að háttsemi Snæþórs hafi verið gróf. Tjón konunnar hafi verið mikið sem var stutt vottorðum og framburði sálfræðings.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert