Veittu 16 ára ökumanni eftirför í borginni

Ökumaðurinn sinnti ekki stöðvunarmerkjum lögreglu.
Ökumaðurinn sinnti ekki stöðvunarmerkjum lögreglu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hugðist hafa afskipti af ökumanni bifreiðar eftir að hafa séð hann aka gegn rauðu ljósi í Árbænum.

Upp hófst eftirför þar sem ökumaðurinn sinnti ekki stöðvunarmerkjum lögreglu heldur jók hraðann til að reyna að komast undan og var bifreiðinni ekið á allt að 150 km/klst. á akbraut þar sem hámarkshraði er 60 km/klst. miðað við bestu aðstæður en mikil hálka var á vettvangi.

För hans var stöðvuð með því að aka í veg fyrir bílinn við gott tækifæri og stöðvaði ökumaðurinn bílinn áður en til áreksturs kom, að því er segir í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Lögreglan að störfum.
Lögreglan að störfum. mbl.is/Hari

Grunaður um fjölda umferðarlagabrota

Ökumaðurinn reyndist vera 16 ára gamall og eðli málsins samkvæmt því ekki með ökuréttindi. 17 ára farþegi í bifreiðinni hafði einnig ekki öðlast ökuréttindi.

Ökumaðurinn var handtekinn og færður á lögreglustöð enda grunaður um fjölda umferðarlagabrota.

Forráðamaður var kallaður til sem kom og vitjaði barnsins. Mildi þykir að ekki hafi orðið slys á fólki miðað við vítaverðan akstur ökumannsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert