Friðrik og BHM höfðu betur gegn Ernu

Friðrik Jónsson, formaður BHM, í Grósku í morgun.
Friðrik Jónsson, formaður BHM, í Grósku í morgun. mbl.is/Árni Sæberg

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur komist að þeirri niðurstöðu að BHM og Friðrik Jónsson, fyrrverandi formaður félagsins, hafi ekki brotið trúnaðarskyldu starfslokasamnings við fyrrum framkvæmdastjóra Ernu Guðmundsdóttur.

Erna gerði starfslokasamning þegar hún hætti sem framkvæmdastjóri. Í honum er kveðið á um að báðir aðilar tjái sig ekki um innihald hans og þá með tilliti til aðdraganda starfsloka Ernu. Erna hafi á móti skrifað undir að trúnaðarsamkomulag og þagnarskyldu.

Eftir undirritun samningsins varð stjórn BHM þess áskynja að greinargerð um „ásakanir“ Ernu væri komin í dreifingu utan stjórnar. Erna hafnaði því að það væri frá henni komið.

Var því gripið til þess ráðs að gera viðauka við samning um starfslok áður en stjórn samþykkti hann. 

Erna Guðmundsdóttir, fyrrum framkvæmdastjóri BHM.
Erna Guðmundsdóttir, fyrrum framkvæmdastjóri BHM. Eggert Jóhannesson

Þar er Ernu gert að tjá sig ekki frekar á þeim nótum sem fram komu í greinargerð. Af sama skapi munu stjórnarmenn ekki hafa frumkvæði að umræðu um greinargerð. Ennfremur að BHM áskilji sér rétt „í ljósi dreifingar bréfsins, til að verja sig opinberlega gagnvart ásökunum sem þar koma fram." 

Báðir aðilar undirrituðu samninginn. Í framhaldinu samþykkti stjórn starfslokasamning Ernu sem færði henni 12 mánaða laun.

Umdeildur pistill 

Þann 9. janúar 2023 skrifaði Friðrik svo pistil sem hann sendi formönnum aðildarfélaga BHM. Í honum segir meðal annars:

„Þetta er staðan nú, þrátt fyrir erfiðan, óvæginn og rætinn mótbyr í starfinu á fyrri hluta ársins. Ég dró ekki dul á það síðastliðið vor hversu eitrað andrúmsloftið innan BHM var orðið og hvíldi það þungt á mér og fjölskyldu minni. Það var þó aldrei annar valkostur en að halda áfram því verki sem ég var kjörinn til, þar með talið að bæta innri stjórn bandalagsins sem var um margt í lamasessi og róttækra breytinga þörf. Skipulagsbreytingar síðastliðið vor, þar með talin ráðning nýs framkvæmdastjóra, auk breyting á umboði og samsetningu stjórnar BHM, nú framkvæmdastjórnar, hafa haft tilætluð jákvæð áhrif. Daglegur rekstur er nú í fastari skorðum, ákvörðunum framkvæmdastjórnar og formannaráðs betur framfylgt en áður og verkstjórn skýrari á allri starfsemi. Lagabreytingar þær sem samþykktar voru á aðalfundi, í samhengi við frábæra niðurstöðu stefnumótunarþings okkar í febrúar, urðu enn frekar til þess að hnykkja á breyttum og vonandi betri tímum innan BHM.“

Með þessu taldi Erna að Friðrik væri að brjóta þann trúnað sem hafði ríkt samkvæmt samkomulagi. Nam bótakrafa hennar um 24 milljónir króna auk skaðabóta upp á 2 milljónir króna. 

Hvergi minnst á Ernu 

Í niðurstöðu dómsins segir meðal annars að hvergi komi fram í pistli Friðriks að hann hafi tjáð sig um aðdraganda starfsloka Ernu:

„Hvergi er vikið að stefnanda berum orðum, hún hvorki nafngreind né með öðrum hætti vísað til hennar eða starfa hennar. Þá er heldur ekki minnst á efni starfslokasamnings við stefnanda. Með engu móti er unnt að fallast á það með stefnanda að með orðum sínum hafi stefndi Friðrik, beint eða óbeint, sagt hana bera ábyrgð á erfiðu andrúmslofti innan bandalagsins,“ segir meðal annars í niðurstöðu dómsins.

Málskostnaður var látinn niður falla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert