Leggur til að borgin hækki frekar verð í sund

Leggur til að borgin hækki verð í sund.
Leggur til að borgin hækki verð í sund. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ólafur Egilsson, leikari og fastagestur í sundi, leggur til að Reykjavíkurborg hækki aðgangseyri á hvern miða í sund um 11,2 krónur í stað þess að halda til streitu skerðingu almenns opnunartíma um helgar úr klukkan 22 í 21. 

Þessu greinir Ólafur frá í færslu á Facebook-síðu sinni þar sem hann byrjar á því að fagna ákvörðun borgarinnar um að draga að einhverju leiti til baka síðustu skerðinu á opnunartíma sundlauga borgarinnar yfir hátíðirnar. 

Margt smátt gerir eitt stórt

Ólafur ræddi um skertan opnunartíma sundlauganna yfir hátíðirnar í samtali við mbl.is milli jóla og nýárs. Í viðtalinu kallaði hann eftir því að borgin myndi endurskoða niðurskurð sinn, en hann hafði reiknað það út að opnunartími sundlauga Reykjavíkur yfir jólahátíðina hefði verið styttur um 162 klukku­stund­ir frá ár­inu 2021, eða úr 275 klukku­stund­um í 113 klukku­stund­ir. 

Á sama tíma og Ólafur fagnar því að borgin hafi tekið mark á kröfum hans undrar hann sig á því að borgin ætli að halda til streitu skerðingu almenns opnunartíma um helgar sem áður var til klukkan 22:00, en er nú klukkutíma skemmri. 

Leggur til að borgin rukki erlenda eldri borgara

„Til að spara 20.000.000. Og það á sama tíma og verið er að skrá sundmenningu landsins á heimsminjaskrá,“ skrifar Ólafur sem kveðst hafa átt spjall við Skúla Helgason, borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, í dag og stungið upp á því að Reykjavíkurborg myndi hætta að hleypa erlendum eldri borgunum ókeypis í sund og/eða að gjaldskráin yrði hækkuð. 

Til ýta undir mál sitt tekur Ólafur sem dæmi að í laugar Reykjavíkurborgar hafi komið 1.775.509 borgandi gestir árið 2023. Því þurfi einungis að hækka aðgangseyri á hvern miða um 11,2 krónur til að viðhalda sama þjónustustig. 

Ekkert mikilvægara en að geta hangið í kvöldsundi 

„Mér finnst þetta grátleg skammsýni. Er ekki eitthvað annað sem hægt er að spara? Þarf styttu af Björk?“ spyr Ólafur áður en hann hendir fram vangaveltu um hvers vegna rekstrarkostnaður borgarstjórnar hækki um 30% milli ára. 

Hvort 6,6 milljón króna „stjórnendadagur borgarinnar“ sem haldinn var í Hörpu fyrir 450 manns hafi verið nauðsynlegur og hvort nauðsynlegt hafi verið að halda þrjú kaffiboð fyrir 2,2, milljónir þegar skipt var um borgarstjóra. 

Að hans mati er ekkert ofantalið mikilvægara en að hann, unglingarnir og aðrir þeir sem vilja geta hangið í kvöldsundi. „Sérstaklega um helgar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert