Mun sjá til þess að stiginn fái nafn

Stiginn í Urriðaholti mun ná upp allt hverfið þegar framkvæmdum …
Stiginn í Urriðaholti mun ná upp allt hverfið þegar framkvæmdum lýkur. mbl.is/Arnþór

Mikil umræða hefur skapast á Facebook-síðu íbúa Garðabæjar eftir að Andrea Róbertsdóttir, framkvæmdastjóri FKA, vakti þar athygli á stiga sem liggur upp Urriðaholtið og er tilvalinn í þrekæfingar. 

Stiginn er um 225 tröppur en framkvæmdir standa enn yfir þar sem tröppuleggja á svæðið fyrir neðan hann. 

Hugmyndir af nöfnum nú þegar vakið athygli

Í innlegginu kallar Andrea eftir nafni á stigann. Meðal þeirra hugmynda sem hafa komið fram eru Stjörnustiginn, Silfurstiginn, Stígagangur og Hafliðastígur til heiðurs Hafliða Kristinssonar, formanns íbúasamtaka Urriðaholts.

Stiginn telur nú um 225 tröppur.
Stiginn telur nú um 225 tröppur. mbl.is/Arnþór

Andrea hefur sjálf verið að hlaupa upp og niður tröppurnar og segir leiðina ótrúlega góða í þrekæfingar og hjálpi við undirbúning á fjallabrölti. 

„Þetta er heilsueflandi bær og þarna er frábært tækifæri til að efla heilsuna. Það er svo frábært að gera það úti og hvað þá þegar það eru svona mörg þrep.“

Bæjarstjórn Garðabæjar svarar ákallinu

Almar Guðmundsson, bæjarstjóri í Garðabæ, segir hugmyndina um að nefna stigann dæmi um þær góðu hugmyndir sem koma fram í samfélaginu. Hann ætlar að sjálfsögðu að taka þessari áskorun og sjá til þess að stiginn góði fái nafn.

„Það er nú þannig að í hlaupasamfélaginu talar fólk mikið um himnastigann í nágrannasveitarfélagi Garðabæjar. Ég hef aðeins verið að vinna í því að fá félaga mína í Garðabænum til að nota sömu æfingatækni nema innan Garðabæjar, þá förum við auðvitað upp í Urriðaholt og töltum upp stigann,“ segir Almar léttur í bragði. 

Margir útivistargarpar landsins kannast kannski við Himnastigann í Kópavogi. Sá er um 207 tröppur. Hæðarmismunur er tæpir 52 metrar og lengd hans um 360 metrar. 

Urriðaholtið frábært hlaupaumhverfi

Stiginn í Urriðaholti mun ná frá göngustígnum neðst í hverfinu við Urriðavatn alla leið upp að toppi hverfisins, hjá Urriðaskóla þegar vinnu við hann er lokið. Neðsti hlutinn hefur ekki verið kláraður, en það er á áætlun segir Almar.

„Þetta skýrist af forgangsröðun verkefna á svæðinu. Það er enn verið að ganga frá lóðum á svæðinu og göturnar í hverfinu eru mislangt komnar í uppbyggingu. Við þurfum því aðeins að tefla verkefnum saman.“

Stiginn ætti að vera fullbúinn í ár eða á næsta …
Stiginn ætti að vera fullbúinn í ár eða á næsta ári segir Almar. mbl.is/Arnþór

Þeir sem vilja prófa stigann geta annað hvort farið efst í Urriðaholt að Urriðaskóla, þá er maður kominn að stiganum ofanfrá, eða komið að Urriðavatni frá Kauptúni. Þá er hægt að taka hring í kringum vatnið og fara upp stigann. 

„Það er náttúrulega frábært. Þá færðu þéttbýlið við stigann og svo náttúruna í öllu sínu veldi í kringum vatnið. Þar er dásamlegt að vera, bæði friðsælt og fullt af dýralífi,“ segir Almar sem nýtur þess að hlaupa í hverfinu.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert