Ók á ofsahraða yfir umferðareyju og skemmdi bílinn

Lögreglan að störfum.
Lögreglan að störfum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ökumaður ók bifreið sinni á 150 km hraða á höfuðborgarsvæðinu og sinnti ekki stöðvunarmerkjum lögreglu. Hann ók yfir umferðareyju og er bifreiðin óökufær.

Ökumaðurinn er grunaður um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Hann var vistaður í fangageymslu lögreglu uns ástand hans skánar og hægt verður að ræða við hann, að því er kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vegna verkefna frá klukkan 17 í gær til klukkan 5 í morgun.

Á slysadeild eftir líkamsárás

Einn var fluttur á slysadeild til aðhlynningar eftir líkamsárás í Breiðholti.

Einnig var tilkynnt um innbrot í heimahús þar sem átti sér stað þjófnaður í hverfi 201 í Kópavogi.

Unglingum vísað í burtu

Lögreglunni barst tilkynning um umferðarslys í Árbænum. Minniháttar meiðsli urðu á fólki. Ökumaðurinn er grunaður um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Hann var vistaður í fangageymslu lögreglu uns ástand hans skánar og hægt verður að ræða við hann.

Óskað var aðstoðar við að vísa hópi unglinga í burtu af veitingastað í hverfi 108, auk þess sem óskað var eftir aðstoð á slysadeild vegna einstaklings sem lét þar ófriðlega.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert