Andlát: Dýri Guðmundsson

Dýri Guðmundsson er látinn, 72 ára að aldri.
Dýri Guðmundsson er látinn, 72 ára að aldri. Mbl/Sigurgeir Sigurðsson
Dýri Guðmundsson, lögg. endurskoðandi, tónlistarmaður og fv. landsliðsmaður í knattspyrnu, lést á Hrafnistu í Hafnarfirði 20. febrúar síðastliðinn, 72 ára að aldri.
Dýri fæddist í Hafnarfirði 14. september 1951 og ólst þar upp. Hann var yngstur fjögurra barna þeirra hjóna Guðmundar Þorlákssonar frá Hafnarfirði og Vilborgar Guðjónsdóttur frá Fremstuhúsum í Dýrafirði.
Dýri gekk í barnaskóla Hafnarfjarðar, en fjölskyldan bjó á móti skólanum á Lækjargötu, en seinna á Tjarnargötu í Hafnarfirði. Dýri gekk svo í Flensborg og Menntaskólann í Reykjavík og var afburða námsmaður sem sinnti fótboltanum og gítarleiknum samhliða námi, var í hljómsveitum og spilaði fótbolta og handbolta langt fram á kvöld með félögum bæði í Hafnarfirði og í íþróttahúsi Menntaskólans í Reykjavík. 
Dýri var öflugur miðvörður í knattspyrnu. Lék í yngri flokkum FH og síðan meistaraflokki félagsins frá 1968-1974, var í liðinu sem komst í bikarúrslit 1972 úr næstefstu deild. Hann lék með Val frá 1974 til 1983 og síðan aftur með FH til 1986. Dýri spilaði 230 deildarleiki með þessum liðum og skoraði 18 mörk. Hann varð Íslandsmeistari þrívegis með Val; árin 1976, 1978 og 1980, og bikarmeistari 1974, 1976 og 1977. Dýri lék fimm A-landsleiki frá 1978 til 1980, fjóra þeirra í undankeppni EM og HM, þar af tvo gegn Hollandi, silfurliði HM frá 1978.
Dýri byrjaði snemma í tónlistinni og var kominn í bekkjarhljómsveit aðeins 12 ára. Hann sendi frá sér tvær plötur í eigin nafni og naut m.a. aðstoðar barna sinna við útgáfuna. Hann spilaði með Valsbandinu, FH-bandinu, söng með Fjallabræðrum, stofnaði kóra og spilaði reglulega á dvalar- og hjúkrunarheimilum fyrir eldri borgara. Þá stofnaði hann hljómsveit með nágrönnum sínum og félögum, og spiluðu þeir um margra ára skeið fyrir framan hús Dýra og Hildar á Lindarbrautinni á Seltjarnarnesi þegar þúsundir hlaupara í Reykjavíkurmaraþoninu fóru þar framhjá, og Hildur sá um veitingar og veisluhöld. Dýri var útnefndur Seltirningur ársins 2017.
 
Á efri árum hallaðist Dýri einnig að myndlist og grafík, þar sem hann nýtti sér excel forritið til að gera pixelverk í stórum stíl og málaði blekkingarverk á veggi í svokölluðum „trompe l'oeil“ stíl sem hann varð innblásinn af á Ítalíu. 
 
Eftirlifandi eiginkona Dýra er Hildur Guðmundsdóttir, f. 1951. Börn þeirra þrjú eru Orri Páll, f. 1977, Guðný Vala, f. 1982, og Ása, f. 1988. Barnabörnin eru níu talsins.
Á hlaðinu. Rokkarinn Dýri Guðmundsson og Hildur Guðmundsdóttir æfa sig …
Á hlaðinu. Rokkarinn Dýri Guðmundsson og Hildur Guðmundsdóttir æfa sig fyrir næsta Reykjavíkurmaraþon. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert