Komandi tímar kalla á útgjöld

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra að ríkisstjórnarfundi loknum.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra að ríkisstjórnarfundi loknum. mbl.is/Eyþór

Katrín Jakobsdóttir for­sæt­is­ráðherra segir þörf á að horfa til blandaðra leiða til að mæta kostnaði vegna náttúruhamfara á Reykjanesskaga. Aukin útgjöld ríkisins eru nauðsynleg á komandi tímabili.

Þetta sagði Katrín í samtali við mbl.is að ríkisstjórnarfundi loknum í morgun. Margvísleg málefni teng Grindavík voru rædd á fundinum og segir Katrín mörg verkefni vera framundan.

Horfir til varanlegs náttúruhamfarargjalds

Þór­dís Kol­brún Reyk­fjörð Gylfa­dótt­ir, fjár­mála- og efna­hags­ráðherra, sagði í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi horfa frekar til uppstokkunar á ríkisrekstri og minni útgjalda frekar en hækkun skatta til að mæta kostnaði vegna náttúruhamdara á Reykjanesskaga. 

Katrín segir að horfa verði til ákveðinnar blandaðar leiðar. 

„Ég tel til að mynda rétt að náttúruhamfaragjaldið sem við settum á núna í haust verði gert varanlegt og jafn vel horft til einhverrar hækkunar.“

Katrín bætir við að framundan sé tímabil þar sem útgjöld eru nauðsynleg. „Við erum að fara inn í tímabil sem kallar á forvarnir. Uppbygging varnargarða hefur til að mynda haldið áfram og eru þetta kostnaðarsamar framkvæmdir. “

Þá segir hún að ekki eru einungis útgjöld vegna Grindavíkur heldur einnig eru kjarasamningar sem kalla á ákveðin útgjöld.

„Það þýðir að sjálfsögðu að við erum að horfa á rökkari rekstur. Þurfum að hugsa fyrir því hvað við getum gert til að reka okkar hluti með hagkvæmari hætti og eins og ég segi þarf auðvitað að horfa til annarra leiða. “

Hagsmunamál að hér náist langtíma kjarasamningar

Katrín ræddi við mbl.is um hádegisbil í dag, en þá hafði VR ekki ákveðið að slíta sig frá breiðfylkingunni. Katrín sagði þá jákvætt að hluti fylkingarinnar hefði náð saman um forsenduákvæði kjarasamnings. Þá nefndi hún einnig að ríkið hefði verið tilbúið að liðka fyrir samningum.

„Við erum búin að vera alveg skýr um það á okkar fundum með aðilum vinnumarkaðsins, breiðfylkingunni og öðrum verkalýðsfélögunum að við erum reiðubúin að greiða fyrir þessum samningum svo lengi sem þeir eru til lengri tíma og styðji við verðbólgumarkmið,“ sagði Katrín.

Að lokum sagði hún ótrúlega mikilvægt hagsmunamál fyrir íslenskt samfélag að hér náist langtímasamningar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert