Umræðu frestað: „Kunnuglegt stef“

Umræða um frumvarp dómsmálaráðherra frestast um rúma viku.
Umræða um frumvarp dómsmálaráðherra frestast um rúma viku. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fyrsta umræða um frumvarp dómsmálaráðherra, um breytingar á útlendingalögum, fór ekki fram í kvöld á Alþingi líkt og dagskrá gerði ráð fyrir. 

Þing kemur ekki saman að nýju fyrr en 4. mars, eftir kjördæmaviku þingmanna, og frestast því umræðan um rúma viku.

Hildur Sverrisdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, segir umræðu um Grindavíkurmálin hafa gengið mjög hægt í dag sem komi þó ekki á óvart í ljósi þess að útlendingamálin voru næsti dagskrárliður. Segir hún augljóst í hvað stefndi.

Voru frumvörpin um kaup á íbúðarhúsnæði Grindvíkinga og rekstrarstuðning ekki samþykkt fyrr en eftir miðnætti.

Varla tilviljun

„Það er varla tilviljun þegar önnur mál um Grindavík hafa gengið mun hraðar fyrir sig hingað til enda í þverpólitískri samstöðu.“

Mætti jafnvel kalla þetta málþóf.

„Þetta er allavega kunnuglegt stef úr þinghúsinu eins og hefur verið öll fyrri ár þegar útlendingamál eru sett af okkur á dagskrá þingsins.“

Til að koma ekki afgreiðslu Grindavíkurmálanna í uppnám segir Hildur að ákvörðun hafi verið tekin um að taka útlendingalögin af dagskrá, svo hægt yrði að afgreiða hin málin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert