„Við hlökkum til þess að fá þig aftur heim“

Hljómsveitarmeðlimir Stuðlabandsins á góðri stund
Hljómsveitarmeðlimir Stuðlabandsins á góðri stund

Stuðlabandið sendir Magnúsi Kjartani Eyjólfssyni, aðalsöngvara hljómsveitarinnar, baráttukveðjur og hefur stofnað styrktarreikning til stuðnings Magnúsi og fjölskyldu hans. 

Greint var frá því að sunnudaginn að Magnús Kjartan hefði nýverið greinst með bráðahvítblæði.

Magnús verður á blóð- og krabbameinsdeild á Landspítalanum á Hringbraut næsta mánuðinn í það minnsta.

Einstakur stuðningur

„Magnús er í algjörum sérflokki þegar kemur að því að skemmta fólki á öllum aldri og hrífa það með sér í gleði og er allur sá meðbyr sem honum hefur hlotnast undanfarna daga með þökkum þáður,“ segir í færslu Stuðlabandsins á instagram. 

Í færslunni segir að strákarnir í hljómsveitinni hafi fundið fyrir einstökum stuðningi og krafti frá fólki í kringum þá og þakka þeir hjartanlega fyrir það. 

Hyggjast sinna þeim verkefnum sem framundan eru 

„Það er auðvelt að falla í þá gryfju að leggja árar í bát við aðstæður sem þessar en eftir að hafa metið þessa stöðu undanfarna daga og velt því upp hvernig við getum sem best verið til staðar fyrir Magnús er það okkar niðurstaða að halda ótrauðir áfram að koma fram og sinna þeim verkefnum sem framundan eru,“ segir í færslunni. 

Með því vill Stuðlabandið leggja Magnúsi lið félags- og fjárhagslega og hefur hljómsveitin stofnað styrktarreikning til stuðnings Magnúsi og fjölskyldu.

„Elsku Magnús, við hlökkum til þess að fá þig aftur heim.“

Stuðlabandið sf.
Kennitala: 640507-2680
Reikningsnúmer: 0325-22-002240

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert