Hafa áhyggjur af auknum vopnaburði meðal ungmenna

Miklar breytingar hafa orðið á starfsumhverfi lögreglu undanfarin ár.
Miklar breytingar hafa orðið á starfsumhverfi lögreglu undanfarin ár. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur markað sér stefnu til næstu fimm ára og gildir hún frá þessu ári og fram til ársins 2028.

Samhliða breyttum heimi tekst embættið á við ýmsar áskoranir. Helstu breytingar á stefnu embættisins er aukin gagnamiðuð löggæsla og áhersla á málefni ungmenna og barna. 

Margrét Kristín Pálsdóttir, settur aðstoðarlögreglustjóri, segist mjög sátt með nýja stefnu en vinna hófst við hana á síðasta ári, og fékk embættið KPMG til liðs við sig. Flestir starfsmenn embættisins tóku þátt í vinnunni, sem var mjög breið og náði til allra starfssviða lögreglunnar. 

Margrét Kristín Pálsdóttir, settur aðstoðarlögreglustjóri.
Margrét Kristín Pálsdóttir, settur aðstoðarlögreglustjóri.

Reyna að ákvarða hvar lögreglan á að vera staðsett hverju sinni

Margrét segir í samtali við mbl.is, að helstu breytingar á stefnu embættisins sé aukin áhersla á stafræna þróun og gagnamiðaða löggæslu. „Við notumst mikið við gögn í okkar ákvarðanatöku en núna munum við leggja meiri rækt við það.“

Lögreglan hefur verið að nota tölfræði til að ákvarða það til dæmis hvar löggæslan á að vera staðsett hverju sinni. Ef það koma upp mörg innbrot í einhverju tilteknu hverfi þá reynir lögreglan að miða löggæslu að þeim þörfum. 

„Við erum að fylgjast vandlega með allri þróun afbrota. Við erum að sjá miklu fleiri vopnuð útköll og höfum áhyggjur af því. Útköll sérsveitar hafa líka aukist til muna og þær líkamsárásir sem við erum að rannsaka eiga þær allar sameiginlegt að þær eru mun alvarlegri en áður.“

Þetta er áhyggjuefni segir Margrét.

Aukinn hnífaburður hjá ungmennum

Í stefnu lögreglunnar er einnig lögð mikil áhersla á málefni ungmenna og barna. 

„Við höfum áhyggjur af auknum vopnaburði meðal ungmenna. Börnin okkar eru útsettari fyrir ýmsu sem kemur með auknu upplýsingaflæði á netinu. Við erum að sjá miður leiðinlega strauma sem orsakast til dæmis í auknum hnífaburði hjá ungmennum.“

Lögreglan er að reyna að snúa við þessari þróun bætir Margrét við og segir að innleiða eigi meðal annars betur ný farsældarlög og leggja aukna áherslu á starfsemi samfélagslöggæslu. 

„Samfélagslöggæsla lýtur að því að vera eins nálægt samfélaginu sem við erum að þjóna og við getum. Þannig reynum við að hlusta betur á þarfir og getum gripið fljótt inn í.“

Samstarf lögreglu og nærsamfélagsins nauðsyn

Þverfagleg samvinna og samstarf lögreglunnar við skóla, sveitarfélög og svo framvegis er mikilvægur hluti af þessari vinnu segir Margrét og bætir við að lögreglan átti sig alveg á því að hún getur ekki staðið ein að þessari áskorun. 

Vilja vera aðgengilegri nærsamfélaginu

Miklar breytingar hafa orðið á starfsumhverfi lögreglu undanfarin ár og viðbúið er að svo verði áfram. Hér hefur orðið þróun sem er sambærileg því sem gerist erlendis og taka verður mið af því.

„Við erum að fá síbreytilegar áskoranir á hverjum tíma og það er auðvitað bara mikill hraði í öllu okkar samfélagi sem reynir á að við grípum fljótt inn. Við viljum bregðast við þessum áskorunum með að vera aðgengilegri í nærsamfélaginu okkar,“ segir Margrét.

„Ræða þarf þær áskoranir sem ungmennin okkar standa frammi fyrir og eiga beint samtal við þau. Með því erum við líka að auka traust til okkar starfa, við viljum auðvitað alltaf að fólk leiti til okkar og við viljum ekki að fólk upplifi einhvern ótta við það.“

Að lokum segist Margrét vera stolt af starfsfólki sínu. Það eru ótrúlega miklir fagmenn sem eru að vinna þessi störf sem eru sífellt meira krefjandi. Það skiptir máli að halda því á lofti og tala fallega um lögreglumenn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert