Jörðin setur sig í stellingar

Jarðvísindamenn spá því margir að það muni gjósa á 3-4 …
Jarðvísindamenn spá því margir að það muni gjósa á 3-4 vikna fresti. Síðast gaus fyrir 8. febrúar. mbl.is/Árni Sæberg

Í vikunni mun landris í Svartsengi sennilega ná sömu hæð og það náði fyrir síðasta gos. Veðurstofa Íslands mun því auka vöktun á Reykjanesskaganum á morgun þar sem að fólk dvelur í Grindavík. Ef gýs gæti hraun flætt inn fyrir varnargarðana.

„Planið er að auka við vöktun og vera viðbúin strax á morgun,“ segir Benedikt Gunnar Ófeigsson, jarðeðlisfræðingur og fagstjóri aflögunarmælinga á Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.

Aðspurður tekur hann undir áhyggjur annarra jarðvísindamanna um að líklega megi búast við gosi á Reykjanesskaganum á um 3-4 vikna fresti, ef innflæðið inn í kvikuhólfið heldur áfram. Síðast gaus 8. febrúar. 

„Við vitum náttúrulega ekki hvernig þetta þróast en ef við gefum okkur að þetta haldi áfram með sama hætti má búast við því að það gjósi mjög reglulega,“ segir Benedikt. Þá bendi flest til þess að næsta gos verði eins og þau síðustu, snarpt en skammlíft og með miklu hraunflæði í upphafi sem deyr síðan hratt út.

Benedikt Gunnar Ófeigsson, fagstjóri aflögunarmælinga á Veðurstofu Íslands.
Benedikt Gunnar Ófeigsson, fagstjóri aflögunarmælinga á Veðurstofu Íslands. mbl.is/Eyþór

Fyrirvararnir verða „veikari og veikari“

„Fyrirvararnir hafa tilhneigingu til þess að verða veikari og veikari,“ segir Benedikt. „Þess vegna höfum við bent á að fyrirvararnir geta minnkað og jafnvel við vondar aðstæður geta þeir orðið mjög litlir og jafnvel illa sjáanlegir.“

Veðurstofan hefur sagt að fyrirvari næsta eldgoss gæti verið styttri en hálftími.

Frá síðasta gosi hafa um 10 rúmmetrar af kviku flætt inn í kvikuganginn undir Svartsengi en gangurinn virðist ekki þola meira magn, að sögn Benedikts. Á meðan innflæðið heldur sama hraða megi búast við gosi á næstu dögum.

Á þriðjudag má gera ráð fyrir því að af kvikumagn í ganginum nái sömu hæð og þann 8. febrúar, ef miðað er við lágmarksmat á kvikumagni.

Getur farið inn fyrir varnargarðana í Grindavík

„Við höfum ekki geta séð fyrir hvar á [Sundhnúka]gígaröðinni þetta kemur upp, nema bara rétt áður en þetta byrjar. Þannig að það er líklegast að þetta komi upp þarna fyrir miðju, við Sýlingarfell eða kannski á milli Sýlingarfells og Hagafells,“ segir Benedikt, spurður út í staðsetningu fyrirhugaðs eldgoss.

Gos sé þó alls ekki útilokað sunnar eða norðar.

„Ég vil einmitt vara við því að þetta getur farið alla leið suður að Hagafelli og inn fyrir varnargarðana í Grindavík,“ segir hann en bendir samt á að gos í byggð sé ólíklegt og enn ólíklegra úti á hafi.

Vinna við varnargarða á föstudag.
Vinna við varnargarða á föstudag. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert