Réri með hnúfubökum: „Ótrúleg lífsreynsla“

Sveinn Elmar Magnússon og Arnar Már Árnason réru með hnúfubökunum …
Sveinn Elmar Magnússon og Arnar Már Árnason réru með hnúfubökunum í blíðskapar veðri í Sundahöfn í gær. Ljósmynd/Óskar Andri Víðisson

„Síðustu fimm ár hefur þetta verið draumur hjá mér,“ segir Sveinn Elmar Magnússon kajakræðari sem réri með hnúfubökum við Sundahöfn í gær. Hann segir í samtali við mbl.is að um einstaka lífsreynslu hafi verið að ræða.

Sveinn Elmar hefur stundað kajakróður af miklum krafti frá árinu 2017 og segist reyna að róa einu sinni í viku. Hann er í kajakklúbbi og rær mest í kringum höfuðborgarsvæðið en annað slagið eru teknar ferðir víðsvegar um landið.

Ljósmynd/Óskar Andri Víðisson

Syntu undir kajakana

„Þetta er í fyrsta sinn sem ég kemst í stórhvali,“ segir Sveinn Elmar sem var ásamt klúbbnum í ferð í gær. Sveinn Elmar og félagi hans Arnar Már Árnason ákváðu að vera lengur við hvalina og tók þá Óskar Andri Víðisson myndirnar sem fylgja fréttinni. 

Ljósmynd/Óskar Andri Víðisson

„Við vorum búnir að heyra að það væru hvalir þarna, og ákváðum að tékka á því,“ segir hann og bætir við að þeir hafi síðan hitt á hvalina í blíðskaparveðri.

Hann segir að hvalirnir hafi líklega verið tveir og voru í um þriggja til fjögurra metra fjarlægð frá þeim félögum. Hnúfubakarnir syntu meðal annars undir kajakana sem Sveinn Elmar segir hafa verið magnað.

Ljósmynd/Óskar Andri Víðisson

Var það ekkert óhugnanlegt?

„Nei, það var mesta furða hvað maður var slakur yfir þessu,“ segir hann en hnúfubakar eru um 12 til 19 metrar á lengd og 25 til 48 tonna þungir.

„Þetta er ekki eitthvað sem gerist á hverjum degi, að það sé bara hnúfubakur inn í [Sunda]höfninni, og að maður hitti á þá... Ótrúleg lífsreynsla.“

Hnúfubakar eru um 12 til 19 metrar á lengd og …
Hnúfubakar eru um 12 til 19 metrar á lengd og 25 til 48 tonna þungir. Ljósmynd/Óskar Andri Víðisson
View this post on Instagram

A post shared by Sveinn Elmar (@sveinnelmar)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert