Sveitastelpan í súkkulaðiveldinu

Sigríður Hrefna Hrafnkelsdóttir kveður það hafa verið töluverð umskipti að …
Sigríður Hrefna Hrafnkelsdóttir kveður það hafa verið töluverð umskipti að hverfa frá stjórnunarstöðu í Íslandsbanka til að taka við súkkulaðitaumunum á Hesthálsinum og gerast forstjóri Nóa-Síríusar. mbl.is/Arnþór

„Ég var framkvæmdastjóri hjá Íslandsbanka og var búin að vera þar í nærri sjö ár þegar mér var boðið að koma og taka við forstjórastöðu Nóa-Síríusar og hingað kom ég svo í desember,“ segir Sigríður Hrefna Hrafnkelsdóttir forstjóri í samtali við mbl.is – eða súkkulaðistjóri sem var raunar yfirskrift auglýsingar um stöðuna á sínum tíma og einhverjir ráku upp stór augu yfir.

„Við hittumst og tókum spjall, Norðmennirnir sem eiga Nóa og ég, og það var bara skemmtilegt,“ segir þessi innsti koppur í búri venjuhelgaðasta og hefðbundnasta súkkulaðiveldis Íslands og líklega þótt víðar væri leitað. Orkla ASA keypti sem kunnugt er allt hlutafé í Nóa-Síríusi vorið 2021 í kjölfar kaupa á 20 prósenta hlut árið 2019.

Sigríður er spurð út í þau umskipti að færa sig úr bankageiranum yfir í eitthvað allt annað – úr seðlum í súkkulaði ef svo mætti segja.

Senn líður að páskum og margir eru vafalítið teknir að …
Senn líður að páskum og margir eru vafalítið teknir að hugsa með hlýju til sumarbústaða, lambalæra, Tenerife og hvaðeina – að ógleymdum íslensku páskaeggjunum. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta var í sjálfu sér stór ákvörðun að taka,“ svarar forstjórinn, „ég var búin að vera í ofsalega góðu starfi hjá Íslandsbanka og búin að leiða þar frábært teymi og miklar umbætur í einstaklingsbankaþjónustu og það að fara úr fjármálageiranum yfir í framleiðslugeirann og framleiðslu á sælgæti, þar er stórt stökk á milli,“ játar Sigríður.

„Neeeiiii“, sælgætisframleiðsla?

Hún segir Nóa spennandi félag með mikla sögu enda hafi það fylgt þjóðinni í rúma öld, frá 1920. „Þegar þetta kom fyrst upp og hann hafði samband við mig hann Sverrir hjá Hagvangi hugsaði ég fyrst með mér að neeeiiii, ég væri ekki að fara yfir í sælgætisframleiðslu. En svo þegar maður fékk að heyra meira, hver plönin væru og hvernig fyrirtækið væri samsett – og fór ekki síður að tengja vörurnar við sína eigin sögu – varð þetta meira spennandi og ég var tilbúin að gera þessa breytingu,“ rifjar forstjórinn upp.

Aðspurð kveður Sigríður ótrúlega skemmtilegt að koma inn í framleiðslufyrirtæki, „og með því skemmtilegasta sem ég geri er að rölta um verksmiðjuna og fylgjast með framleiðslunni því þar er mikið líf og mörg handtök unnin. Margar af okkar vörum eru unnar í höndunum og það er mjög gaman að fylgjast með þeim handbrögðum og því handverki,“ segir hún.

Mikilvægt sé að ganga af virðingu og vinsemd um þessa íslensku framleiðslu og halda því á lofti að það sé einmitt það sem hún er – íslensk. „Þetta hefur áhrif á mig og mér finnst gaman að geta haft áhrif á innlenda vöruframleiðslu,“ segir Sigríður af starfseminni sem krefst 150 starfsmanna sem eðlilega komi víða að.

„Við erum fjölmenningarfyrirtæki og menningin hér er ofsalega sterk og góð, mikil virðing borin fyrir vörunum og starfsfólkið stolt af sínum vinnustað, við sjáum það á könnunum sem við leggjum fyrir auk þess sem margir hafa verið hér lengi og við erum mikið fjölskyldufyrirtæki,“ segir forstjórinn og ljóstrar því upp að hjá Nóa starfi heil fjölskylda, hjón og sonur þeirra, auk fleiri hjóna, frændsystkina og vandamanna.

Margur heldur líklega að sælgætið frá Nóa sé að langmestu …
Margur heldur líklega að sælgætið frá Nóa sé að langmestu leyti á ábyrgð véla og sjálfvirkni nútímans, að minnsta kosti þóttist sá sem hér skrifar nokkuð viss um það. Sannleikurinn er hins vegar sá að glettilega margt er unnið í höndunum að fornum sið. Ljósmynd/Aðsend

Jól og páskar – ekki bara trúarhátíðir

„Gleðin sem einkennir framleiðsluna er líka áberandi,“ tekur Sigríður fram og geta súkkulaðisælkerar í hópi lesenda líkast til gert sér í hugarlund að framleiðslustörf á þeim vettvangi geti verið gefandi.

Hvað með álagstoppa á borð við jól og páska, annars vegar helstu konfekthátíð landans og á hinn bóginn frídagana fimm að vori þegar eins konar eggjahljóð kemur í alla þjóðina? „Aldrei hafa svo margir átt svo fáum svo mikið að þakka,“ sagði Winston Churchill um orrustuna um Bretland. Hvernig fara 150-menningarnir á Hesthálsinum að því að flytja þjóðinni allt þetta súkkulaði án þess að bugast?

„Þetta eru óneitanlega miklir álagspunktar hjá okkur, bæði við framleiðslu og sölu,“ svarar Sigríður, „þótt við vinnum framleiðsluplanið vel og hugsum langt fram í tímann erum við að vinna með vöru sem við viljum halda sem mestum gæðum á og viljum vera að vinna sem næst þeim tíma sem við setjum vöruna okkar fram til sölu og bæði konfektið okkar og páskaeggin eru mikil handavinna,“ heldur hún áfram.

„En þetta eru vertíðir og við lifum af þessu. Milli …
„En þetta eru vertíðir og við lifum af þessu. Milli lota reynum við svo nýja framleiðslu og prufum okkur áfram með alls konar nýjungar,“ segir Sigríður um jólin og páskana þegar þjóðin sporðrennir einhverjum tonnum af súkkulaði. mbl.is/Arnþór

Nammi sem þjóð hefur skoðun á

Þannig sé pökkun hins annálaða Nóa Konfekts öll unnin í höndunum og það sama gildi um páskaeggin, þann þátt framleiðslunnar segir Sigríður ekki unninn í vélum nema að litlu leyti. „En þetta eru vertíðir og við lifum af þessu. Milli lota reynum við svo nýja framleiðslu og prufum okkur áfram með alls konar nýjungar,“ segir hún frá og blaðamaður freistast til að spyrja sérstaklega út í afmælisútgáfu hins góðkunna Nóa Kropps sem samstarfskona hans minntist á í aðdraganda viðtalsins.

„Jú, nú var að koma tíu ára afmælisútgáfa af Nóa Kroppi með hvítu súkkulaði sem er stærra en venjulega útgáfan,“ svarar Sigríður og segir enn fremur frá tveimur nýjum tegundum af hinum sígildu súkkulaðiplötum, einni þekktustu framleiðslu fyrirtækisins, og nýju páskablandi í poka sem upplagt sé að grípa með og hafa í skál við sjónvarpsglápið síðkvöldin löng og helgar.

Blaðamaður forvitnast um kveikjuna að nýrri framleiðslu og hvernig hún verði eiginlega til hjá sælgætisframleiðanda sem sífellt, eða alla vega oft, dælir út nýjum vörum sem stór hluti þjóðarinnar hefur skoðanir á – ekki síst hvað konfektið fræga snertir, þar sem sumar greinar heimstrúarbragða virðast nánast falla í skuggann. Situr einhver nefnd bara allan daginn og hugstormar um nýtt nammi?

Blind svör rýnihópa

Blaðamaður heggur nærri þótt ekki hitti alveg í mark. „Já, við erum með vöruþróunarhóp sem hittist vikulega og er að hugsa, pæla, skoða og sækja sér innblástur alls staðar að. Við kaupum hráefni til að prófa okkur áfram með, sjá hvað virkar saman og hvað ekki. Þessir fundir eru afar skemmtilegir og það verður að segjast að í þessu starfi er maður að smakka súkkulaði og sælgæti í hverri einustu viku,“ segir forstjórinn og hlær dátt.

Hjá Nóa-Síríusi starfa um 150 manns og má segja að …
Hjá Nóa-Síríusi starfa um 150 manns og má segja að þjóðin treysti á þær hendur sem hér sjást útbúa páskaegg af natni og elju. Ljósmynd/Aðsend

Metnað vöruþróunarhópsins segir hún óþrjótandi og auðvitað þarf svo annar hópur að vera á hinum endanum – fulltrúar hins kröfuharða neytanda sem greiðir fyrir vöruna, þekkir merkið og býst við bragði í samræmi við 104 ára reynslu.

„Við erum með rýnihópa og þegar við erum komin á þann stað, til dæmis með nýja Kroppið, að þetta sé vara sem okkur langar að prófa, þá sendum við nýja framleiðslu út til viðkomandi hóps og biðjum um prófun,“ útskýrir Sigríður. Svörin geti þá verið á alla vegu, til dæmis bara nei ef nýja nammið strýkur bragðlaukum rýnihópsins andhæris.

„Raddir neytenda hafa rosalega mikið vægi hjá okkur,“ segir Sigríður, „það er til lítils að vera að fara út með vöru ef neytandinn er ekki hoppandi kátur með hana. Við vitum nöfnin á því fólki sem er í rýnihóp, en við fáum blind svör til baka þannig að við vitum ekkert hver er á bak við hvaða svar,“ segir viðmælandinn.

Fagmennska norskra nammigrísa

Hvað með norska eignarhaldið? Norðmenn eru annálaðir nammigrísir og sælgætisauglýsingar gríðarlega fyrirferðarmiklar í Noregi. Þær eru bókstaflega alls staðar og súkkulaðiverksmiðjan Freia, sem rekur sögu sína til 1889, norsku þjóðinni slíkt fjöregg að næst gengur sjálfum olíubransanum. Er kannski eina vitið að þeir eigi Nóa-Síríus?

Sigríður gefur lítið fyrir það. „Ég get sagt fyrir mína parta að ég finn lítið fyrir þessu norska eignarhaldi. Við hér í Nóa rekum Nóa-Síríus á Íslandi og berum ábyrgð á rekstri félagsins sem er íslenskt félag í íslenskri framleiðslu,“ segir hún en játar þó kosti norska eignarhaldsins.

Sigríður Hrefna er úr Breiðholtinu en var í sveit hjá …
Sigríður Hrefna er úr Breiðholtinu en var í sveit hjá móðursystur sinni í Skagafirðinum langa sumardaga æskunnar. mbl.is/Arnþór

„Það sem við fáum með Norðmönnunum er kannski helst aukin fagmennska sem snýr að utanumhaldi í rekstrinum. Norska félagið er náttúrulega stórt félag á norska markaðnum, skráð í norsku kauphöllinni og þau vinna með öðrum hætti en félög á Íslandi. Þannig að það sem við höfum fengið með þeim er afskaplega gott skipulag kringum til dæmis fjárhagsuppgjör, skil á fjárhagsgögnum, þannig að við erum kannski meira að finna fyrir þessu inni á skrifstofu en í framleiðslunni,“ segir Sigríður enn fremur.

Spurð út í framtíðarsýn Nóa kveður forstjórinn hana snúast um að vaxa á íslenskum markaði og halda áfram að framleiða hágæðavöru handa Íslendingum að njóta, vera hluti af þessum gæðaaugnablikum Íslendinga og hluti af sögunni. Fyrir það viljum við standa,“ lýsir Sigríður yfir.

Breiðholtsvillingur í MR

En hver er þessi nýi súkkulaðistjóri Íslendinga sem venti kvæði sínu í kross og yfirgaf stjórnunarstöðu í banka til að leggja lóð sitt á vogarskál hlýrra nautnastrauma konfekts og páskaeggja?

„Ég er bara fædd og uppalin í Reykjavík, gekk grunnskólagönguna í Breiðholtinu þannig að ég er Breiðholtsvillingur kannski,“ svarar Sigríður ísmeygilega og hlær við. Úr grunnskóla í Breiðholti lá leiðin í Menntaskólann í Reykjavík og þaðan í lagadeild Háskóla Íslands en Sigríður skartar málflutningsréttindum auk embættisprófs í lögum og hefur enn fremur lokið MBA-prófi frá Copenhagen Business School.

„Svo fór ég yfir í rekstur fljótlega og er búin að vera í rekstri í vel yfir tuttugu ár,“ segir Sigríður sem einnig hefur þó fengið að finna sinn skerf af fjósalykt, var í sveit á sumrin sem barn hjá móðursystur sinni á Arnarstöðum í Skagafirði, skammt norður af Hofsósi. „Ég myndi segja að ég væri óttaleg sveitastelpa,“ segir Sigríður enda reynist landbúnaðurinn henni enn í blóð borinn.

Forstjórinn kveður ójafnan leik í verðlagningu mjólkurdufts hafa komið sér …
Forstjórinn kveður ójafnan leik í verðlagningu mjólkurdufts hafa komið sér í opna skjöldu en Nói-Síríus heldur nokkrum kúabúum uppi með því magni sem þar er keypt inn. Ljósmynd/Aðsend

„Það sem hefur kannski komið mér mest á óvart hérna í Nóa er hvað leikurinn er ójafn hvað varðar verðlagningu á mjólkurdufti sem er 25 prósent af því sem við notum í framleiðslunni hérna og við erum að kaupa þetta á öðru verði en því sem boðið er til útflutnings. Það er dálítið áhugavert,“ segir sveitastelpan sem varð forstjóri og bætir því við að hennar fyrirtæki kaupi engu að síður magn sem haldi uppi nokkrum kúabúum.

Sigríður er í sambandi og tveggja barna móðir. Þegar stjórnun og súkkulaði sleppir tekur útivistin við sem hennar helsta ástríða. „Ég er algjör útivistarfíkill, ég held ég geti bara orðað það þannig. Ég kann best við mig á fjöllum, gangandi, hlaupandi eða á skíðum. Það er það sem ég geri eftir langa daga til að endurhlaða mig,“ segir Sigríður Hrefna Hrafnkelsdóttir að skilnaði, Breiðholtsvillingur, sveitastelpa og forstjóri sætasta vinnustaðar landsins, Nóa-Síríusar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert