„Förum lausnamiðuð í þetta samtal“

Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður RSÍ, kveðst hóflega bjartsýnn.
Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður RSÍ, kveðst hóflega bjartsýnn. mbl.is/Sigurður Bogi

„Staða mála er svo sem bara sú að við erum búin að sitja á fundum í dag og síðustu daga við að halda samtalinu gangandi,“ segir Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambands Íslands, í samtali við mbl.is um gang mála í yfirstandandi kjaraviðræðum.

Kveður Kristján ekki frá miklu að segja en samtal fagfélaganna við Samtök atvinnulífsins hafi verið ágætt undanfarna daga. „Ég veit ekki hvað maður á að segja nákvæmlega, ætli maður sé ekki bara hóflega bjartsýnn, þetta á eftir að halda áfram og við sjáum hvort við komumst ekki eitthvað lengra, við förum lausnamiðuð í þetta samtal,“ segir formaðurinn.

Inntur eftir því hvort fagfélögin hefðu áhuga á að taka VR að samningaborðinu með sér eftir að félagið yfirgaf breiðfylkinguna, samflot Eflingar, Starfsgreinasambandsins og Samiðnar, sagði hann að þar hefði samtal átt sér stað, „við erum bara að fara yfir stöðuna hvað þetta varðar og þannig er staðan“, segir Kristján.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert