Getum ekki tekið við 500 flóttamönnum

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins er ósammála um að hægt sé að taka við 500 flóttamönnum á ári hingað til lands eins og sakir standa. Hún segir landið uppselt um þessar mundir og gengur því lengra en Guðrún Hafsteinsdóttir, sem í Dagmálum Morgunblaðsins sagði í liðinni viku að Ísland væri í færum til að taka á móti um það bil 500 flóttamönnum á ári.

Inga er gestur nýjasta þáttar Spursmála þar sem flóttamannamál voru meðal annars til umræðu.

Ólíkum hlutum blandað saman

„Ég er búin að taka eftir því í umræðunni að það er verið að blanda saman því fólki, þú talar um hvort við eigum að velja þá sem eru meira menntaðir eða annað slíkt. Við erum núna aðallega að tala um þann viðkvæma hóp fólks sem er að leita hér að alþjóðlegri vernd. Við erum að tala um hælisleitendur sem eru að leita að alþjóðlegri vernd. Það heyrir ekki einu sinni undir sömu ráðuneyti, einstaklingar sem koma hér og vinna og halda í rauninni uppi ökonomíunni, efnahagskerfinu, vinnumarkaðnum okkar. við vitum að það eru yfir 75 þúsund einstaklingar af erlendu bergi sem eru búsettir á landinu okkar. 20% þjóðarinnar er af erlendu bergi brotin.“

Segir Inga að verið sé að blanda saman tveimur ólíkum málum þegar rætt er um innflytjendur annars vegar og flóttamenn hins vegar.

„Mér finnst bara svo dapurt þegar verið er að blanda saman því og þessu sem við erum að sjá núna. Yfir 4.155 hæliisleitendur óskuðu eftir alþjóðlegri vernd hérna í fyrra. Það voru örlítið fleiri, 4.300 árið 2023. Við erum að tala um alla Árborg og rúmlega það sem er að sækja um hérna á tveimur árum. Kostnaðurinn er kominn yfir 35 milljarða. Við látum bara eins og að sírennslið úr ríkissjóði sé bara ótæmandi. Við getum bara haldið áfram að nota fjármuni ríkissjóðs í rauninni í málaflokkinn sem ríkisstjórnin er í rauninni með allt niður um sig gagnvart. Vegna þess að ferlið sjálft, umsóknarferlið er alltof langt. Við þurfum að halda utan um þennan hóp, þennan viðkvæma hóp fólks, hælisleitendurna, við þurfum aðh alda utan um þau allan tímann sem þau eru að bíða eftir því að stjórnvöld, útlendingastofnun, kærunefndin, segi já, nei.“

- En tekur þú undir þessi sjónarmið dómsmálaráðherrans?

„Ég er mun grófari og segi akkúrat á þessum tímapunkti að Ísland er uppselt gagnvart fleiri umsóknum um alþjóðlega vernd meðan við erum að vinna niður þann gríðarlega fjölda umsókna sem þegar eru fyrir í kerfinu. Ég segi bara. Ef þetta glas væri fullt og þú réttir mér könnu og segðir mér að hella í glasið myndi ég spyrja þig hvort það væri ekki í lagi með þig.“

Viðtalið við Ingu Sæland og Braga Valdimar Skúlason má sjá og heyra í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert