Ógnaði starfsmönnum og braut rúðu í leigubíl

Lögreglan að störfum í miðbæ Reykjavíkur.
Lögreglan að störfum í miðbæ Reykjavíkur. mbl.is/Ari

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu barst tilkynning um einstakling sem sýndi fram á ógnandi hegðun í garð starfsmanna á matsölustað í miðbæ Reykjavíkur.

Stuttu síðar barst önnur tilkynning um einstakling að lemja og sparka í leigubíl. Rúða í bílnum brotnaði í látunum.

Reyndist þetta vera sami einstaklingurinn í bæði skiptin og var hann handtekinn og vistaður í fangaklefa í þágu rannsóknar málsins, að því er segir í dagbók lögreglunnar vegna verkefna frá klukkan 17 í gær til kl. 5 í morgun.

Nokkuð var um tilkynningar sem bárust lögreglu vegna fólks í  í annarlegu ástandi sökum áfengis eða annarra vímugjafa. Sex einstaklingar gistu í fangageymslu lögreglu þegar dagbókin var skrifuð í morgun.

Neitaði að yfirgefa varðsvæði lögreglu

Lögreglan á Vínlandsleið handtók ökumann bifreiðar vegna gruns um akstur undir áhrifum áfengis. Hann var látinn laus úr haldi lögreglu að blóðsýnatöku lokinni. Ökumaðurinn lét svo öllum illum látum fyrir utan lögreglustöðina og sparkaði í hurðar og öskraði hástöfum.

Honum voru gefin ítrekuð fyrirmæli um að yfirgefa varðsvæði lögreglu, sem hann gerði ekki. Var hann í kjölfarið vistaður í fangaklefa í þágu rannsóknar málsins.

Innbrot í Breiðholti

Tilkynnt var um innbrot í heimahús í Breiðholti og er málið í rannsókn.

Lögreglunni barst tilkynning um einstakling í annarlegu ástandi á bar í miðbæ Reykjavíkur. Reynt var að fá upp úr honum hvar hann ætti heima svo hægt væri að aka honum heim til sín, en ekki gekk það. Hann var því vistaður í fangaklefa að sökum ástands.

Tilkynning barst jafnframt um þjófnað úr matvöruverslun í stela úr matvöruverslun í Grafarholti. Vettvangsskýrsla var rituð.

Lögreglan að störfum.
Lögreglan að störfum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Æstur í apóteki

Að auki var tilkynnt um þjófnað á rafmagnshlaupahjóli í hverfi 105. Meintur gerandi var handtekinn stuttu seinna.

Þá var látið vita af æstum einstaklinga í apóteki í Reykjavík. Hann var farinn þegar lögreglu bar að garði. Sömuleiðis  var tilkynnt um slagsmál í miðbæ Reykjavíkur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert