Starfsemi lækna stöðvuð á Akureyri

Akureyri.
Akureyri. mbl.is/Sigurður Bogi

Heilsugæslunni Urðarhvarfi hefur borist bréf frá Sjúkratryggingum Íslands (SÍ), sem kemur að óbreyttu í veg fyrir að tveir heimilislæknar starfi í aðstöðu á Læknastofum Akureyrar. Starfsemin á Akureyri verður því stöðvuð tímabundið. 

Þetta kemur fram á Facebook-síðu Heilsuverndar þar sem segir að ákvörðun SÍ komi á óvart. Vefmiðillinn Akureyri.net fjallaði fyrst um málið.  

Meginstarfsstöð læknanna Vals Helga Kristinssonar og Guðrúnar Dóru Clarke er í Urðarhvarfi.

Aðstaða þeirra á Læknastofunum á Akureyri var ætluð til að koma til móts við þarfir skráðra skjólstæðinga heilsugæslunnar, sem búa á Akureyri og vilja hitta heimilislækni sinn.  

Valur Helgi hóf störf 2. janúar og segir í færslunni að hann hefur sinnt skráðum skjólstæðingum stöðvarinnar, bæði þar og með fjarvinnu, með rafrænum hætti gegnum Heilsuveru og í síma. Þá var mögulegt að sinna vitjunum eftir því sem átti við.

Guðrún Dóra hefur störf 1. mars.

Enginn viðbótar kostnaður fyrir hið opinbera

Í færslunni segir að í þeirri aðstöðu, sem Heilsugæslan Urðarhvarfi hefur til afnota á Akureyri felst enginn viðbótarkostnaður fyrir hið opinbera. 

Óskað hefur verið eftir fundi með Sjúkratryggingum og Heilbrigðisráðuneyti í kjölfar ákvörðunar SÍ. Þá hefur Læknafélag Íslands málið til skoðunar.

Heilsugæslan Urðarhvarfi telur það ekki standast og þarf að skera úr um það ósamræmi að sjúkratryggðir megi lögum samkvæmt skrá sig hvar sem er á heilsugæslustöð óháð búsetu og sækja þjónustu hvar sem er óháð búsetu, heilsugæslustöðvum sé uppálagt að taka við skráningum óháð búsetu, en ætla svo að meina þjónustuaðilum að flytja þjónustu sína, á eigin kostnað, nær skjólstæðingum sínum til að veita þá þjónustu sem óskað er eftir.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert